Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna nú aðgengilegt á 40 tungumálum.

Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað hratt hér á landi og mikil þörf hefur verið fyrir matstæki til að meta námslega stöðu þeirra. Slíkt heildstætt matstæki er nú komið í notkun, á íslensku og um 40 öðrum tungumálum og er það aðgengilegt öllum á vef Menntamálastofnunar.

Sveitarfélögin Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær hófu samstarf árið 2016 um að þýða og staðfæra stöðumatstæki sem notað hefur verið með góðum árangri í Svíþjóð. Síðar bættist Reykjavík inn í samstarfið.

Verkefnið miðar að því að bregðast sem fyrst við námsþörfum nýrra nemenda, byggja á styrkleikum þeirra og efla námshæfni með markvissri íhlutun á fyrstu stigum skólagöngu í nýju landi. Stöðumatið er ekki próf en gefur skólanum innsýn í hvaða reynslu og þekkingu nemandinn hefur og hvaða nemendur þurfa sérstakan stuðning við námið.

„Þetta er mikilvægt verkfæri sem skólakerfið hefur lengi vantað til að kortleggja námslega stöðu nýrra nemenda í íslensku skólakerfi. Við innleiðingu matsins hefur starfsfólk í þátttökusveitarfélögum deilt áhuga, sýn og lært saman nýja hluti og kann ég þeim góðar þakkir fyrir afar dýrmæta vinnu sem aðrir njóta nú góðs af. Stöðumatið mun nýtast bæði einstaklingum og skólasamfélaginu í heild,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Matið var gefið var út af Skolverket í Svíþjóð og lögleitt þar í grunnskólalögum árið 2016. Öllum skólum í Svíþjóð er skylt að leggja matið fyrir en það skiptist í þrjú stig.

1. stig – fyrri þekking og reynsla:
Mat sem kortleggur fyrri þekkingu og reynslu nemandans, t.d. varðandi tungumálakunnáttu, aðra skólagöngu og helstu styrkleika. Niðurstöður matsins auðvelda skólunum að skipuleggja nám út frá þörfum nýja nemandans.

2. stig – læsi og talnaskilningur:
Mat sem kannar lestrarfærni og talnaskilning nemandans á hans eigin móðurmáli.

3. stig – námsgreinar:
Mat sem kannar kunnáttu í námsgreinum s.s. ensku, stærðfræði, náttúrufræði, samfélagsgreinum, er í vinnslu og stefnt er að því að það verði aðgengilegt í upphafi næsta skólaárs. Það mat mun gefa skólum innsýn í þekkingu og hæfni í þeim námsgreinum og skapa grundvöll til að skipuleggja betur nám og kennslu við hæfi.

Stöðumatið er aðgengilegt öllum á vef Menntamálastofnunar. Þar er að finna öll gögn sem þarf til að leggja það fyrir s.s. kennsluleiðbeiningar, verkefni, skráningargrunna og samantektarskjöl. Þar eru einnig kynningarmyndbönd þar sem farið er yfir forsögu þess, fyrirlögn hvers hluta fyrir sig, niðurstöður og hagnýt atriði.

Virkt samráð og samtal hefur verið til staðar hjá þeim sem unnið hafa að innleiðingu matsins og hefur sameiginlegra leiða verið leitað til að greina og bæta markvisst starfshætti sem stuðla að betri námsárangri og líðan nemenda.

Stýrihópur verkefnisins mun áfram svara kalli sveitarfélaga, halda kynningarnámskeið og vera kennurum innan handar varðandi fyrirlögn ásamt því að vinna að frekari innleiðingu á faggreina- og leikskólahluta stöðumatsins. Gert er ráð fyrir að leikskólamatið verði tilbúið til notkunar fyrir haustið 2021. Nokkrir framhaldsskólar eru einnig farnir að nýta sér stöðumatið.

Mynd/Stjórnarráð