Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri Fjallabyggðar undirrituðu í gær samning varðandi staðsetningu varðskips úti fyrir Norðurlandi með Siglufjörð sem heimahöfn. Markmið samningsins er m.a. að tryggja öflugri leitar- og björgunarþjónustu á hafi úti í norðurhluta efnahagslögsögu Íslands og á því leitar- og björgunarsvæði sem Ísland er ábyrgt fyrir samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.
Samningnum er auk þess ætlað að vera ákveðinn rammi utan um samstarf Fjallabyggðar og Landhelgisgæslu Íslands er varðar það markmið aðila að tryggja almannavarnir og öryggi á norðurslóðum.
Í máli Georgs kom fram mikil ánægja með þá ákvörðun að staðsetja Freyju með heimahöfn á Siglufirði sem og með það mikla og góða samstarf sem gæslan hefur átt við fyrirtæki og einstaklinga í Fjallabyggð. Nú þegar hafa 5 einstaklingar úr Fjallabyggð hafið störf hjá Landhelgisgæslunni og vonast er til að áhöfn Freyju verði mönnuð enn fleiri einstaklingum úr heimabyggð.
Sigríður þakkaði þeim sem lögðu hönd á plóg varðandi framgang verkefnisins að tryggja Freyju heimahöfn í Fjallabyggð. ,,Hafsvæðið umhverfis Íslands er almennt talið erfitt yfirferðar vegna mikillar veður- og ölduhæðar, ísingar og kulda. Þá skapar rekís á svæðinu mikla hættu fyrir skip norður af landinu. Við viljum taka höndum saman við Landhelgisgæsluna og vinna markvisst að uppbyggingu starfseminnar hér í Fjallabyggð með öryggi til sjós og lands í huga.“
Heimild og mynd/Fjallabyggð