Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland Svarfdæla.
Drög að áætluninni eru hér með lögð fram til kynningar.
Friðland Svarfdæla var friðlýst árið 1972 fyrir tilstuðlan bænda í Svarfaðardal til verndar lífríki og landslagi friðlandsins. Votlendi einkennir friðlandið og er svæðið mikilvægt búsvæði ýmissa votlendisfugla en talið er að rúmlega 35 fuglategundir verpi innan friðlandsins, bæði votlendis-, sjó- og mófuglar. Svæðið er einnig vinsælt til útivistar og fræðslu.
Meginverndargildi Friðlands Svarfdæla er fuglalíf svæðisins og búsvæði fugla, en í friðlandinu verpa meðal annars tegundir sem skráðar eru í hættu og í yfirvofandi hættu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Auk þess hafa ýmsar vistgerðir á svæðinu mjög hátt verndargildi. Verndunin er þó ekki einungis fólgin í verndun fuglalífs, heldur einnig á þeim hefðbundnu nytjum sem eru og hafa verið á svæðinu frá stofnun friðlandsins og löngu fyrir þann tíma.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðland Svarfdæla er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur, sveitarfélag og hagsmunaaðila og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt hlaupandi aðgerðaáætlun til þriggja ára.
Hér að neðan má sjá stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið auk aðgerðaáætlunar til þriggja ára og auglýsingar nr. 443/1980.
Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum fyrir friðlandið er til og með 26. mars 2021.
Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Nánari upplýsingar veita Lilja Bjarnadóttir, liljab@ust.is og Davíð Örvar Hansson, david.hansson@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.
Mynd/Dalvíkurbyggð