Móttaka umsókna um viðspyrnustyrki er nú hafin hjá Skattinum. 

Viðspyrnustyrkjum er ætlað að styðja fyrirtæki og einyrkja sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Markmiðið með styrkjunum er að rekstraraðilar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Styrkirnir gilda vegna tekjufalls á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til 31. maí 2021 og geta verið allt að 2,5 milljónir á mánuði.

Sótt er um á vef Skattsins og þar eru allar nánari upplýsingar um viðspyrnustyrkina.

Að undanförnu hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. Þau eru á annan tug talsins – styrkir, lán, gjaldfrestir og annað sem á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt. Frá því í janúar hafa um 1.550 rekstraraðilar fengið um 8,3 milljarða króna greidda í tekjufallsstyrki, en þeir gagnast rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og er markmiðið að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.

Tæpir sex milljarðar endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti

Þá hefur um 2,1 milljarður króna verið greiddur í lokunarstyrki, sem koma til móts við rekstraraðila sem gert hefur verið að stöðva starfsemi sína. Tæpir sex milljarðar króna hafa verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti (VSK) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar gagnast einkum einstaklingum, sveitarfélögum og félögum á borð við almannaheillafélög og íþróttafélög.

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

Mynd: Golli

Skoða á vef Stjórnarráðsins