Meirihluti þeirra sem taka afstöðu er fylgjandi aðild að ESB

Íslendingar hafa mikinn áhuga á Evrópusamvinnu og í nýlegum könnunum Maskínu má sjá að af þeim sem tóku afstöðu eru 53,3% fylgjandi því að Ísland gangi í Evrópusambandið og 66% sem vilja halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort taka eigi aftur upp aðildarviðræður við sambandið.

„Það er hagur okkar allra að við vekjum umræðuna um aukna Evrópusamvinnu. Við erum Evrópuþjóð sem á heima í evrópsku samstarfi og það er mikilvægt að við getum rætt þessi mál á málefnalegan hátt,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður Evrópuhreyfingarinnar.

Meirihluti þeirra sem taka afstöðu eru fylgjandi aðild

Könnun Maskínu, sem fór fram nú í byrjun febrúar, sýnir að 40,8% aðspurðra voru hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en 35,9% því andvíg. Ef einungis er horft til þeirra sem tóku afstöðu eru 53,3% hlynnt inngöngu

„Við höfum séð stuðning við Evrópusambandsaðild vaxa jafnt og þétt að undanförnu, þó mest frá því í febrúar 2022 þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og minnti okkur óþægilega á mikilvægi ESB sem friðarbandalags,“ segir Jón Steindór. „Þetta er í fyrsta sinn frá því mælingar Maskínu (áður MMR) hófust, árið 2011, sem við sjáum að stuðningur við aðild er meiri en andstaðan og kannski er það einfaldlega vegna þess að við erum að stíga meir og meir upp úr skotgröfunum og horfa á málin af meiri yfirvegun. Við höfum líka lært mikið af stríðinu í Úkraínu og áhrifum Brexit sem hafa reynst Bretum þungt í skauti. Sveiflur í gengi krónunnar, himinháir vextir og verðbólga hafa örugglega sín áhrif líka. Þá sjáum við að stuðningur við ESB er minna flokksbundinn en áður, og innan allra fylkinga vex áhugi á aukinni Evrópusamvinnu. Það er skýr stefna hjá okkur í Evrópuhreyfingunni að halda beri þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að taka aftur upp aðildarviðræður við ESB. Með skýru umboði er hægt að ganga til samninga og sjá síðan svart á hvítu hvað stendur til boða. Að því loknu yrði fullkláraður samningur borinn fyrir þjóðina sem gæti þá kosið um aðild á upplýstan hátt.“

66% sem tóku afstöðu eru fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu

Í könnun sem Maskína lagði fyrir í desember 2022 var spurt að afstöðu fólks gagnvart því að halda þjóðaratkvæðagreiðsla um að Ísland taki aftur upp aðildarviðræður við ESB.  Tæpur helmingur þjóðarinnar, eða 48% voru fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkt en ef einungis er horft til þeirra sem tóku afstöðu voru 66% hlynnt því slíku.