Fjallabyggð býður nemendum í 1.-4. bekk áfram möguleika á frístundarstarfi strax að loknum skólatíma kl. 13.35 – 14.35. Starfið er fjölbreytt og í samstarfi við íþróttafélög,  tónlistarskólann og fleiri aðila. Nemendur eru skráðir í frístundarstarfið hálfan vetur í einu. Æfingar hjá íþróttafélögum eru gjaldskyldar og greiðast við skráningu annað hvort með frístundastyrk eða með öðrum hætti. Önnur viðfangsefni í Frístund eru í boði Fjallabyggðar.

Skráning er nú rafræn gegnum forritið Sportabler og frístundastyrkir barna á aldrinum 4 – 18 ára verða rafrænir frá næstu áramótum en búið er að opna fyrir ráðstöfun þeirra nú þegar. Þegar foreldrar skrá börnin sín í gjaldskyld viðfangsefni (æfingar íþróttafélaga) gefst þeim kostur á að velja hvort nýta eigi frístundastyrk barnsins, þá eru foreldrar að nýta frístundastyrkinn fyrir árið 2022 eða hvort foreldrar vilji greiða með öðrum hætti. Frístundastyrkur fyrir árið 2022 er kr. 40.000 á barn á aldrinum 4 – 18 ára.

Nemendur eru skráðir með rafrænum hætti á vefslóðinni https://www.sportabler.com/shop/fjallabyggd . Ef foreldrar eiga ekki aðgang að Sportabler þarf að stofna hann með því fara í nýskráningu á síðunni. Hægt er að hlaða appi niður í snjalltæki/snjallsíma.  

Þeir foreldrar sem ætla að nýta lengda viðveru fyrir börn sín eru beðin um að skrá þau á sömu skráningarsíðu en reikningar munu berast um hver mánaðarmót fyrir þjónustunni. Sjá gjaldskrá á heimasíðu Fjallabyggðar.

Athygli er vakin á að í nokkra hópa í Frístund eru fjöldatakmarkanir.

Foreldrar eru hvattir til að skrá börn sín í Frístund og lengda viðveru sem allra fyrst, helst á næstu dögum þannig að tími gefist til skipulagningar áður en skólastarf hefst 4. janúar nk. Skráning er opin til 31.desember 2021. Eftir að skráningu er lokið tekur skólaritari við skráningu í netfanginu ritari@fjallaskolar.is

Ef foreldrar lenda í vandræðum með skráningu má hafa samband við Ríkeyju Sigurbjörnsdóttur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála rikey@fjallabyggd.is eða Hólmfríði skólaritara gegnum netfangið ritari@fjallaskolar.is .

Meðfylgjandi skjöl hafa að geyma lýsingar á þeim viðfangsefnum sem eru í boði fyrir nemendur. Gott er að hafa þau til hliðsjónar þegar valið er.

Þar sem verið er að notast við þetta verklag í fyrsta sinn eru foreldrar beðnir um að sýna þolinmæði og skilning, það er alveg viðbúið að einhverjir hnökrar komi í ljós eða byrjunarörðugleikar.

Vor 2022 val um viðfangsefni

Kynning á viðfangsefni í Frístund vor 2022

Leiðbeiningar af vef Sportabler, skráning og nýskráning

Frístundastyrkur Fjallabyggðar, reglur 2022