Skæð fuglaflensa greinist enn í villtum fuglum hér á landi. Matvælastofnun telur því ekki óhætt að aflétta þeim varúðarráðstöfunum sem fyrirskipaðar voru í mars á þessu ári. Fuglaflensufaraldurinn er einnig viðvarandi annars staðar í Evrópu og víðar. Enn er mikilvægt að fólk tilkynni um veika og dauða fugla til Matvælastofnunnar.

Nú í lok október hafa flestar tegundir farfugla yfirgefið landið og er því fuglastofninn að verða samsettur af þeim tegundum sem dvelja hér yfir veturinn. Þeir sjófuglar sem hafa orðið verst úti af völdum fuglaflensu í ár, eru flestir komnir út á sjó eða til annarra vetrardvalastaða. Þar af leiðandi hefur dregið úr smithættu frá þeim, en hún er þó ekki yfirstaðin. Súlur halda sig að hluta til við strendur landsins yfir vetrartímann og mun skýrast með tímanum hvernig faraldurinn þróast í þeim, en mjög fáar ábendingar hafa borist í október frá almenningi um dauðar súlur.

Skæð fuglaflensa greindist nýverið í svartbökum á Suðurnesjum, nánar til tekið í Sandgerði og Garði, en vart hafði orðið við aukin dauðsföll í þeirri tegund í september. Þetta er áhyggjuefni þar sem svartbakurinn er staðfugl og er í hópum um þetta leyti árs með öðrum tegundum máfa sem einnig dvelja hér allt árið. Það má þess vegna reikna með að smithætta sé áfram til staðar fyrir aðra villta fugla og alifugla út frá þeim.

Einnig greindist skæð fuglaflensa í skúmum í september. Fjöldi máfa og skúma settust niður veikir á varðskip Landhelgisgæslunnar og drápust þar. Sýni voru tekin úr fjórum skúmum úr þessum hópi og greindist fuglaflensa í þeim öllum.

Í ljósi þessarar stöðu getur Matvælastofnun ekki mælt með afléttingu á þeim varúðarráðstöfunum sem kveðið er á um í auglýsingu nr. 380/2022 og birt var í Stjórnartíðindum 30. mars á þessu ári. Því þurfa fuglaeigendur áfram að hafa fugla sína í húsum eða lokuðum yfirbyggðum gerðum. Tilgangur ráðstafananna er að vernda alifugla og aðra fugla í haldi gegn fuglaflensusmiti frá villtum fuglum. Rétt er að geta þess að ráðstafanirnar gilda ekki um dúfur.

Í skýrslu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA), á fuglaflensutilfellum frá júní til september 2022, kemur fram að fuglaflensufaraldurinn sem hefur geisað í Evrópu síðan í fyrrahaust, er sá stærsti í Evrópu hingað til. Í alifuglum hefur fuglaflensa greinst á nálægt 2.500 búum og á þeim hefur þurft að aflífa samtals um 47,7 milljónir fugla. Óvenju mörg tilfelli hafa greinst í villtum fuglum og útbreiðsla verið mikil, allt frá Svalbarða í norðri til Portúgal í suðri og Úkraínu í austri. Annað sem er óvenjulegt við þennan faraldur er að tilfelli hafa greinst í villtum fuglum í allt sumar en í fyrri faröldrum hafa sýkingar yfirleitt einungis komið upp yfir vetrartímann. Sama staða hefur verið hér á landi og annars staðar í Evrópu hvað þetta varðar. Allt frá því í apríl hafa borist tilkynningar frá almenningi um veikindi eða dauðsföll í villtum fuglum, fyrst eftir miðjan september fór að draga úr tilkynningum.

Matvælastofnun fylgist náið með þróun á aðgerðum erlendis gegn fuglaflensu. Í allri Evrópu er gripið til niðurskurðar ef upp kemur skæð fuglaflensa í alifuglum en vinna er hafin við að skoða möguleika og aðferðir við að bólusetja alifugla gegn fuglaflensu.

Það er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá áfram aðstoð almennings við vöktun á fuglaflensu, með því að fólk sendi tilkynningu til stofnunarinnar þegar það finnur veikan eða dauðan villtan fugl. Enn eru engar vísbendingar um að fólk geti smitast af þeirri gerð fuglaflensuveirunnar sem um er að ræða í þessum faraldri. Þrátt fyrir það mælir Matvælastofnun með að hræ villtra fugla séu látin liggja á fundarstað eða þau tekin og sett í plastpoka og fargað með almennu sorpi. Ávallt skal gæta almennra persónulegra smitvarna og forðast að snerta hræin með berum höndum.


Mynd: mast.is