Undanfarið hafa fundist veikir refir, einn á Þingeyri og þrír við Keflavíkurflugvöll. Sýni náðust úr þremur þeirra og í þeim greindist skæð fuglainflúensa af gerðinni H5N5. Sama gerð skæðrar fuglainflúensu greindist í fuglum á Norðvesturlandi í september sl. og í fuglum og spendýrum hérlendis síðasta vetur. Greiningarnar fóru fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Skæða afbrigði fuglainflúensuveiru H5N5 greindist fyrst í spendýrum hérlendis síðastliðinn vetur í heimilisköttum, einum mink og einum ref, dreift víða um land. Þetta afbrigði hefur einnig greinst í villtum spendýrum í öðrum löndum á norðurhveli þar sem villtir fuglar hafa verið sýktir af sama afbrigði H5N5.
Fuglaeigendur eru hvattir til að gæta ítrustu smitvarna við umgengi á sínum fuglahópum. Óljóst er hversu mikið veiran er útbreidd í villtum fuglum um þessar mundir því greiningar í þeim hafa verið fáar. Á Suðvesturlandi liggur einungis fyrir greining í hrafni sem fannst veikur í Reykjavík og því er óljóst frá hvaða fuglategundum refirnir hafa smitast.
Matvælastofnun hvetur almenning til að tilkynna stofnuninni um veika og dauða fugla og villt spendýr sem það finnur. Það er gert með því að smella á „ábendingar og fyrirspurnir“-hnappinn á forsíðu www.mast.is. Mikilvægt er að lýsa staðsetningu vel, helst með hnitum, og láta mynd fylgja með.
Veika villta fugla eða spendýr í nærumhverfi manna skal ekki handleika nema með góðum einstaklings sóttvörnum, sjá nánar um það á upplýsingasíðu um fuglainflúensu.
Almenna reglan er að hræ af villtum fugli er látið liggja. Ef hræ er aftur á móti þannig staðsett að það þurfi að fjarlægja, til dæmis nálægt hýbýlum fólks þarf að gæta að einstaklings- og sóttvörnum og nota til verksins einnota hanska og veiruheldar grímur.
Veiðimenn eru hvattir til að sýna varkárni við veiðar og verkun villtra fugla. Ekki skal veiða fugla og nýta til matar sem haga sér óeðlilega eða eru sjáanlega veikir/slappir. Þó skal það tekið fram að fuglar sem virðast heilbrigðir geta líka verið smitaðir af fuglainflúensu. Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir veiðimenn um meðhöndlun allra veiddra fugla á tímum fuglainflúensu.
Mynd/MAST