Siglufjörður er eitt stærsta bæjarfélag á Íslandi sem hefur aldrei átt lið í efstu deild karla í fótbolta. Svona byrjaði innslag Stefáns Pálssonar, Fornspyrnan, í Pepsimörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöld.
Árið 1963 tók Knattspyrnufélag Siglufjarðar þátt í Íslandsmótinu í fyrsta skipti. Félagið hóf leik í næstefstu deild og gekk vonum framar. 3. ágúst það ár lék liðið úrslitaleik við Þrótt um hvort liðið færi í efstu deild.
Heimamenn á Siglufirði unnu 4-2 eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Nokkrum dögum síðar kærði Þróttur úrslit leiksins. Kæran var vegna ólöglegs leikmanns, leikmaður í 3. flokki KS hafði tekið þátt í leiknum.
Á þessum árum þurfti sérstakar undanþágur fyrir leikmenn svo unga.
Sagan segir að Siglfirskur leikmaður sem ekki komst í liðið hafi verið svo sár yfir því að táningur hafi tekið pláss hans að hann blaðraði leyndarmálinu í gestina.
Þrótti var dæmdur sigur í leiknum og spilaði í efstu deild næsta tímabil á meðan Siglfirðingar sátu eftir.
Sjá myndband með frétt: Myndband
Frétt fengin af vefnum: Vísir.is