Ferðaþjónustubransinn í Dalvíkurbyggð hefur sjaldan verið blómlegri en hann er í dag, segir á vef Dalvíkurbyggðar.
Nýlega fór fram uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og fór partur af henni fram í Dalvíkurbyggð. Heimsóknir voru að þessu sinni á Baccalá bar og Whales á Hauganesi – Bruggsmiðjuna Kalda og Bjórböðin á Árskógssandi og Klængshól í Skíðadal.
Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar, en þær eru sproti ársins, fyrirtæki ársins og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Að þessu sinni var GeoSea á Húsavík valið sproti ársins, fyrirtækin Ektafiskur og Hvalaskoðun á Hauganesi fengu sameiginlega viðurkenningu fyrir fyrirtæki ársins og að lokum var það Skagfirðingurinn Evelýn Ýr Kuhne sem hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu.
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár eru það tvö fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu sameiginlega, það eru Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi.
Forsíðumynd og heimild: dalvikurbyggd.is