Hvað erum við lengi að renna á Skagann frá Sigló? Þegar ég segi Skagann þá meina ég auðvitað Akranes, en þegar ég var á barnaskólaaldri og var að hlusta á Lög unga fólksins, fannst mér ótrúlega mikið af kveðjum ýmist koma af Skaganum eða vera sendar þangað. Eini Skaginn sem ég var með í kollinum á Þessum tíma var Skaginn milli Skagafjarðar og Húnaflóa og þar hélt ég að byggi nú ekki svo ýkja margt fólk. En það var víst til bær sem hét Akranes, en í þá daga var ég ekki búinn að uppgötva tenginguna milli þess bæjar og örnefnisins Skipaskaga sem oft er aðeins kallaður Skaginn. En aftur að spurningunni; hvað við erum lengi að renna á Skagann frá Sigló? Þær upplýsingar er að finna á alnetinu að fjarlægðin milli þessara tveggja staða sé 349 km og aksturstíminn sé 4 klukkutímar og 21 mínúta.

Tímarnir hafa heldur betur breyst frá því um árið þegar ég varð sjö ára, því í fyrsta skiptið sem ég kom þangað, tók ferðalagið heila þrjá daga. Ég rifja stundum upp þetta tímamótaferðalag með sjálfum mér og því fylgja jafnan bæði ljúfar og ljúfsárar minningar því það gerðist svo ótal margt á svo ótrúlega fáum dögum meðan það stóð yfir.

Greinarhöfundur fáeinum misserum fyrir fyrsta ferðalagið sitt í nýju matrósarfötunum sínum.
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Árið var 1963, þetta var snemma sumars og Skarðið var enn lokað.

Þessi ferð var mitt allra fyrsta alvöruferðalag,

Ég fór í fyrsta skipti bæði um borð í bát og flugvél.
Ég sá Akureyri í fyrsta skipti. 
Ég sá Reykjavík í fyrsta skipti.
Ég ferðaðist með flugvél í fyrsta skipti.
Ég ferðaðist með strætó í fyrsta skipti.
Ég hitti föður minn í fyrsta skiptið til að muna eftir því.
Ég hitti systur mína í fyrsta skipti.
Ég hitti föðurafa minn í fyrsta skipti og ömmu bæði í það fyrsta og síðasta.
Ég hitti ótal frændur og frænkur sem ég hafði í mörgum tilfellum jafnvel ekki vitað að væru til.

Og nú langar mig lesandi góður að bjóða þér að upplifa með mér svolítið bergmál löngu liðinna ára. Atburði sem meitluðust inn í barnssálina fyrir heilum 60 árum.

Drangur í slipp á Siglufirði, en hann mun hafa verið stærsta skip sem þar hefur verið tekið upp.
Ljósmynd Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins

Dagur 1.

Ég var vakinn að því mér fannst alveg óguðlega snemma morguninn sem lagt var af stað í fyrsta hluta þessarar langferðar. Ég gekk með afa mínum og ömmu ofan af Brekku og niður á Hafnarbryggjuna. Afi bar auðvitað ferðatöskuna eins og séntilmanni ber að gera, en ég var ennþá hálfsofandi þegar við klöngruðumst um borð í Drang. Ég hélt áfram að sofa eftir að við amma komum um borð, en afi hélt til sinna verka í Slippnum. Líklega hef ég alveg sloppið við sjóveikina því ég hefði örugglega munað vel eftir slíkum ófögnuði. Einhvern tíma rumskaði ég við að báturinn hægði ferðina, stóð upp og þrýsti andlitinu að gleri í kýrauga. Ég sá að við nálguðumst bryggju og þar upp af sást í nokkur hús. 

„Erum við þá komin til Akureyrar“?

Nei, þetta var víst Ólafsfjörður, eða var það Dalvík?

Man það ekki alveg, enda breytti það engu um að ennþá var langt til Akureyrar.

Þarna var staldrað við um stund sem mér fannst þó vera óralangur tími.

Loksins var haldið úr höfn og ég mókti einhvers staðar milli meðvitundarinnar og þokukenndra draumheimanna.

Svo var komið í höfn á ný, en það var heldur ekki á Akureyri þegar að var gáð.

Hrísey, Árskógssandur, Grenivík, Hjalteyri, Hauganes?

Man ekki lengur hverjir af þessum stöðum voru heimsóttir, en held að það hafi verið staldrað við á að minnsta kosti fjórum stöðum á leiðinni til Akureyrar og það var langt liðið á daginn þegar loksins var lagst að annað hvort Torfunesbryggjunni eða Höepfnersbryggjunni í þeim ágæta bæ.

Ég átti á þessum tíma og á reyndar enn stóran frændgarð á Akureyri, og fór það sem eftir lifði kvölds í heimsóknir til ættingja. Það gerðum við einnig fram eftir deginum sem á eftir fór, en á Akureyri átti amma nefnilega fjögur systkini og við gistum hjá systur hennar þar.

Dagur 2.

Það var hann Laugi frændi minn sem ók okkur á flugvöllinn þegar það var farið að halla degi og svo skrýtið sem það er, þá dúkka stundum upp agnarlítil heilleg minningabrot sem hafa sest að einhvers staðar lengst inni í kollinum á mér, unga manninum sem var að sjá hluta af veröldinni í fyrsta sinn. Laugi benti mér á flugvélina sem beið á flughlaðinu og sagði mér að þetta væri nú stærsta flugvélin á Íslandi og ég ætti einmitt að fara að fljúga með henni til Reykjavíkur. Hann sagði líka að þessi tegund héti Viscount og vakti athygli mína á að hún væri fjögurra hreyfla. 

Gullfaxi á Akureyrarflugvelli. Ljósmyndari ókunnur.

Löngu seinna komst ég svo að því að það höfðu verið til tvær svona vélar, þ.e. Gullfaxi og Hrímfaxi, en ekki veit ég hvor vélin það var sem flutti okkur suður yfir heiðar þennan dag. Árið eftir að við amma stóðum þarna á Akureyrarflugvelli og flugum suður með þessari stóru flugvél, hlekktist Hrímfaxa á við Fornebuflugvöll við Oslo og fórst bæði áhöfn og farþegar, alls tólf manns. Þetta fann ég út þegar ég gúgglaði farkostina löngu, löngu síðar. En nú var stigið um borð og eftir svolitla stund horfðum við niður yfir bæinn þar sem húsin virtust brátt agnarsmá, og nokkrir bílar sem við sáum á ferðinni líkastir leikfangabílum af allra minnstu gerð. Síðan liðum við um loftin blá suður yfir heiðar og flugfreyja gekk milli sætanna bauð farþegum hressingu. Ég fékk stóran og litríkan brjóstsykur sem var pakkað inn í glært plast eins og karamellu. Ég hafði aldrei séð svona nammi áður og leið einhvern vegin eins og ég væri á leið langt út í heim þar sem allt sælgæti væri öðruvísi en það sem fékkst heima á Sigló.

Ég fylgdist áhugasamur með síbreytilegu landslaginu langt fyrir neðan, og stöku húsaþyrpingar, bóndabæir eða bílar á ferð sigu hægt aftur úr flugvélinni. Allt í einu fór hljóðið í hreyflunum að lækka og mér dauðbrá auðvitað og hélt fyrst að við værum að hrapa. En við vorum alls ekki að hrapa, heldur að hefja aðflug að Reykjavíkurflugvelli. Flugvélin seig niður úr skýjunum og ég sá núna hreint ótölulegan fjölda af húsum birtast fyrir neðan okkur. Endalausar götur og fullt af pínulitlum bílum siluðust eftir götunum. Ég spurði ömmu hvor væri stærri, Reykjavík eða Akureyri. 

Reykjavík svaraði hún að bragði. 

Mér þóttu þau tíðindi ekki sérlega góð því Akureyri var fyrir norðan eins og Siglufjörður sem var bærinn minn, rétt eins og landshlutinn sem hann tilheyrði.

„Ég ætla nú samt að halda með Akureyri“ sagði ég lágt og ég er ekki frá því að amma hafi flissað svolítið við þessari athugasemd.

Eftir að við höfðum lent og náð jarðsambandi, var splæst í taxa sem var auðvitað enn ein nýlundan fyrir mér, og af flugvellinum var haldið á Tjarnargötu 10 þar sem amma átti aðra systur og þar ætluðum við einmitt að gista næst.

Á Tjarnargötunni tók mamma og Anna frænka mín á móti okkur. Það var farið að verða svolítið kvöldsett svo að ekki var fleira á dagskránni þann daginn. Konurnar þurftu að tala alveg óskaplega mikið að mér fannst og mér leiddist þetta mal í þeim sem ég hafði lítinn áhuga á, enda ennþá svolítið upptendraður eftir æsilega atburði dagsins. Ég virti fyrir mér húsakynnin hjá Önnu frænku minni og fór í svolítinn könnunarleiðangur um þau, en það var hvergi neitt dót að finna sem ég gæti leikið mér að. Einhvern vegin þurfti ég þó að virkja afgangsorku dagsins og ég fór að skokka um ganginn og ýmist inn í eldhús eða stofuna. Það endaði ekki vel því að í einni ferðinni rak ég mig í lítið borð með glerplötu sem fór auðvitað á hliðina og það sprakk út úr glerplötunni. Þær skömmuðu mig auðvitað allar þrjár og ég vildi helst af öllu sökkva ofan í gólfið þar sem ég stóð. Það gerðist þó ekki og ég horfði bara niðurlútur og skömmustulegur á það sama gólf í staðinn. Annars fór alltaf vel á með okkur Önnu, en eitt sinn þegar ég heimsótti hana næstum því hálfri öld síðar þar sem hún bjó þá orðið í þjónustuíbúð við Lindargötu, benti hún mér á lítið sætt borð sem á var dúkur og myndir í ramma.

„Manstu eftir þessu“ spurði hún og setti upp mjög torræðan svip sem greinilega átti að fylgja spurningunni.

Nei, ég áttaði mig ekki á hvers vegna ég ætti að muna eftir neinu á þessu borði eða þá borðinu sjálfu.

„Þú braust glerið einu sinni þegar þú komst í heimsókn á Tjarnargötuna“.

Anna gleymdi greinilega ekki neinu þrátt fyrir að langt væri liðið síðan ég var bara sjö ára og hún væri komin vel á tíræðisaldur.

Dagur 3.

Daginn eftir héldum við mamma, amma Sóley og ég niður að höfninni í Reykjavík, og nú var lagt af stað í síðasta hluta ferðalagsins áleiðis að lokatakmarkinu. Aftur var farið sjóleiðina, því Akraborgin beið við bryggjukantinn og þegar okkur bar að var verið að hífa bíl um borð í skipið. Þetta var nokkuð sem ég varð að virða fyrir mér af mikilli kostgæfni, því ég hafði aldrei hugsað út í hvernig bíll liti út neðan frá. Eftir á að hyggja finnst mér þetta svolítið undarlegar hugleiðingar ungs manns, en líklega var það bara eðlilegt að athyglin beindist að því sem aldrei hafði áður borið fyrir augu. Ég hafði bara horft á bíl sem farartæki með glansandi lakkaðar hliðar, topp, húdd og skottlok. En þetta var alls ekki svoleiðis, heldur blasti við skítugur og ryðgaður botninn, og ég horfði forviða á pústkerfið liggja frá vélinni eins og slagæð eða eitthvað líffræðilegt en alveg bráðnauðsynlegt fyrirbæri rétt eins og líffæri í okkur mannskepnunni, og alla leið aftur fyrir stuðara. Jú bílar þurfa víst líka að getað andað frá sér.

Akraborgin sem ég sigldi með upp á Skaga 1963. Ljósmyndasafn Akraness/ Ljósmyndari óþekktur.

Á þessum tíma sigldi gamla Akraborgin milli Reykjavíkur og Akraness, en þrjú skip í eigu Skallagríms hf. hafa borið nafnið Akraborg. Þetta er það fyrsta, var tekið í notkun árið 1956 og var í notkun til 1974 og hlýtur því að hafa verið skipið sem flutti okkur yfir flóann.

Og eftir svolitla siglingu vorum við loksins komin á Skagann, þremur dögum og fáeinum klukkustundum betur eftir að lagt var af stað.

Heimsóknin.

Við vorum sótt niður á bryggju á Akranesi og þaðan var ekið spölkorn suður fyrir bæinn, að Ásfelli þar sem föðurfjölskyldan bjó nánast öll á sömu torfunni. Afi og amma í gamla húsinu, en þrír bræður pabba höfðu byggt sér og fjölskyldum sínum reisuleg hús á jörðinni. Fjórði bróðirinn hann Árni sem var þá nýfermdur bjó enn í foreldrahúsum. Þetta byrjaði eiginlega ekki sérlega vel, því að þegar við gengum yfir túnbleðilinn heim að bænum var tekið á móti okkur með miklum fagnaðarlátum. Reyndar allt of miklum fyrir minn smekk, því að hundurinn á bænum kom hlaupandi á móti okkur og flaðraði upp um gestina. Ég hafði á þessum aldri aldrei umgengist neina hunda, því þeir voru ekki margir heima á Siglufirði á þessum tíma. Reyndar man ég ekki eftir neinum, en hafði þó heyrt minnst á hunda um borð í togurunum minnir mig. 

Hjálmar afi og einn af hundunum sem hann átti á sínum búskaparferli, en líklega þó ekki sá sami og tók á móti mér með takmarkalausum gleðilátum þegar ég heimsótti föðurfjölskylduna. 

Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Ég fraus í fyrstu, en hljóp síðan af stað til baka skelfingu lostinn. Hundurinn elti auðvitað og var hinn kátasti yfir viðbrögðum mínum, því hann taldi að þarna hefði hann eignast nýjan leikfélaga sem vildi koma í eltingaleik. Það varð auðvitað til þess að ég varð ennþá hræddari og herti ferðina til muna, ákveðinn í að eina lífsvonin til að sleppa frá þessu óargadýri fælist í því að hlaupa eins hratt og fæturnir gátu borið mig niður á bryggju og ná skipinu þegar það færi til baka. Samferðafólkið og móttökunefndin horfði furðu lostin á þessi viðbrögð mín, en áttaði sig að lokum að ég væri að öllum líkindum bara hræddur við hunda. Heimafólkinu tókst að lokka „Snata“ heim að bænum og hann var í framhaldinu lokaður inni, en bar sig skiljanlega illa yfir slíkri meðferð af því að það hafði verið svo gaman fyrir aðeins fáeinum andartökum síðan. Það gekk hins vegar mun verr að fá mig til að snúa til baka eftir þessa skelfilegu lífsreynslu, og ég er ekki frá því að það hafi tekið gott betur en daginn að jafna mig á þessari uppákomu. 

Sæunn systir mín lengst til vinstri, ég ríghaldandi í mömmu og Sóley ömmu, enn að jafna mig eftir hræðslukastið vegna hundsins og Sæunn föðuramma mín til hægri.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Ég var óöruggur með mig allt þar til ég var kominn aftur til Reykjavíkur, þrátt fyrir að allir gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að gera mér þessa stuttu dvöl í sveitinni hjá afa og ömmu sem bærilegasta. Hjartað í mér var ekki stórt á þessum árum, en líklega ennþá minna þennan dag, þrátt fyrir að ég hefði verið búinn að hlakka mikið til að hitta systur mína í fyrsta skiptið. Ég hafði lengi vitað af tilvist hennar og oft spurt um hana, því mér þótti svona undir niðri eitthvað bogið við að eiga systur sem átti heima á allt öðrum stað en ég. Þetta var ekki svona á brekkunni heima á Sigló, því þar bjuggu margir stórir systkinahópar hjá foreldrum sínum. Afmælisdagurinn hennar Sæu systur var líka sá fyrsti sem ég festi mér í minni eftir að ég lærði að muna minn eigin sem var löngu áður en lagt var í þessa langferð.

Sæunn systir mín var send úr eldhúsinu með epli til að gefa mér ef það mætti verða til þess að hressa mig eitthvað við og ná úr mér hundahrollinum.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Líklega var það þó hann Árni föðurbróðir minn sem tókst best upp með að fá mig til að sleppa takinu á mömmu og ömmu í eldhúsinu og koma með sér inn í herbergið sitt að leika. Hann fann til fullt af gömlu dóti sem hann hafði reyndar verið búinn að leggja þar sem hann var upp úr því vaxinn, en hentaði prýðilega mínum aldri. Bar þar hæst heljarmikinn bómukrana sem ég varð strax yfirmáta hugfanginn af og Árni gaf mér síðan að skilnaði.

Árni Hjálmarsson föðurbróðir minn (1948-1987). Blessuð sé minning þessa góða drengs.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Þegar leið á daginn var aftur haldið niður á höfnina á Akranesi og hundurinn sem tók á móti okkur fékk af því tilefni frelsi sitt á ný. Dagana á eftir var farið í heimsóknir til vina og skyldmenna syðra og þá gjarnan ferðast í strætó á milli staða sem mér þótti mikil nýlunda og ökutæki af gríðarlegri stærð, auðvitað ómeðvitaður um að ég ætti sjálfur eftir að stýra slíkum vagni á sömu slóðum löngu síðar á lífsleiðinni. Þá var líka farin alveg sérstök ferð á einhverja lesstofu þar sem ég og mamma hittum pabba þar sem hann var að mig minnir að læra undir próf. Ég held að við feðgar höfum verið svolítið feimnir hvor við annan, en þau fyrrum kærustuparið virtust hin kátustu með að sjá hvort annað og spjölluðu heilmikið saman. Að fáeinum dögum liðnum var haldið norður sömu leið og við komum suður, en að þessu sinni sagði Laugi frændi minn sem tók á móti okkur á Akureyrarflugvelli að flugvélin sem við flugum með norður væri að gerðinni Douglas DC-3. Merkilegt hvað þetta með flugvélategundirnar hafa fest sig í barnsminninu.

Afi og amma á Ásfelli.

Afi minn Hjálmar Jónsson fæddist árið 1910 að Kollafjarðarnesi á Ströndum, en amma mín Sæunn Ingibjörg Sigurðardóttir 1908 vestur í Bolungarvík. Langafi minn faðir Hjálmars var séra Jón Brandsson prestur að Kollafjarðarnesi. Sagt er að hann hafi lítið komið að búrekstrinum en alltaf haft í þjónustu sinni nokkurn fjölda vinnumanna og kvenna. Sagan segir einnig að þegar Hjálmar afi minn var vaxinn úr grasi hafi hann verið sendur ríðandi yfir Steingrímsfjarðarheiði til móts við vinnukonu sem hafði verið ráðin að Nesi eins og Kollafjarðarnes var gjarnan kallað, og mætt henni ásamt fylgdarmanni einhvers staðar í Ísafjarðardjúpi. Hann hafi síðan snúið til baka með henni og þau haldið aftur inn djúpið og upp á heiði. Þótti heimilisfólkinu hann vera undarlega lengi á leiðinni, en ástæðan mun hafa legið nokkuð ljós fyrir þegar þau voru því næst sem trúlofuð þegar þau loksins skiluðu sér.

Afi og amma byrjuð að búa og flutt suður á Innstavog rétt fyrir norðan og austan Akranes. Síðar fluttu þau að Ásfelli þar sem þau bjuggu til dauðadags.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Mér er sagt að afi hafi verið skemmtilegur karl og svolítið ólíkindatól á köflum, en því miður kynntist ég honum allt of lítið. Það mun til dæmis hafa verið sérlega erfitt að ná góðri mynd af honum því honum tókst oftast að kalla fram heilmikla grettu á andlitinu á sama augnabliki og ljósmyndarinn smellti af. Eftir að fjölskyldan fluttist á Ásfell rak hann ásamt nágranna sínum Páli Eggertssyni í Lindási umtalsverðan alifuglabúskap. Eins og gengur þarf slíkur rekstur á töluverðum aðföngum að halda og höfðu þeir félagar eitt sinn m.a. tekið út vörur hjá Þorgeiri & Ellert hf. Þegar bið eftir greiðslu þótti vera orðin hæfilega löng eða rétt rúmlega það, var Valgeiri Runólfssyni falið að senda þeim Innheimtubréf, en það hljóðað svo.

17.04.1967.
Pútur og Peking hf. 
Lindásfelli.

Hagvaxtarstjóri í hænsnarækt, 
hér með tilkynnist yður,
að lánsviðskipti vor lokast öll, 
við Lind/Ásfellsbú, – því miður.

Meðan búið ei getur greitt, 
gömlu skuldina niður, 
eitthundrað króna og einar tólf, 
sem eru þar stærstur liður.

Liðið er hátt á annað ár, 
án þess að greiðsla fáist, 
en fuglarnir skila fullum arð, 
þó féhirðir stöðugt þráist.

Ferðast sá út um fjarlæg lönd, 
þótt fullnaðaruppgjör láist, 
og skuldseiglu þessa merka manns, 
að margur skálkurinn dáist.

Aðgangshörku við yðar bú, 
oss verður tæpast kennt um, 
og lögfræðinga að leita til, 
með skuldina ekki nenntum.

Og þótt við hyggðumst heimta féð, 
hátt vér ei bogann spenntum, 
nú krefjumst vér skuldaskila strax, 
með skráðum vöxtum og rentum.

Virðingarfyllst.
Þorgeir & Ellert hf.

Bréfið hafði hins vegar þau áhrif að þeir félagar drógu greiðsluna sem allra lengst í von um að fá annað sambærilegt bréf.

Mamma og Hjálmar afi á góðri stund, en þau voru alla tíð perluvinir, einnig eftir að hún og pabbi slitu samvistum.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Amma lést í aprílmánuði árið 1976 aðeins fáeinum dögum fyrir 67 ára afmælisdaginn sinn, en ég komst því miður ekki í jarðarförina þar sem ég var veðurtepptur í Vestmannaeyjum.

Mamma og Pabbi.

Fyrsta minningin um móður mína Minnie G. Leósdóttur stendur mér ennþá ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, rétt eins og atburðurinn hefði átt sér stað í gær. Líklega er þetta líka fyrsta minningin sem ekki dofnar og hverfur út í myrkvaðan buskann þegar árunum fjölgar. Mér hafði verið sagt að móðir mín sem væri búin að vera í skóla í Reykjavík kæmi í bæinn með rútunni í kvöld, en ég sem var bara fjögurra ára skildi þetta ekki alveg. Ég átti heima hjá afa og ömmu í húsinu þeirra á brekkunni heima á Siglufirði og var sæll og glaður með það. Um kvöldið fór ég að venju í háttinn um áttaleytið, en seinna um kvöldið rumskaði ég við að glaðlegar raddir rufu kvöldkyrrðina. Fyrst úti á pallinum fyrir utan húsið, en síðan bárust þær inn í gang og þaðan inn í eldhús. Ég áttaði mig á því að þessi kona sem amma mín hafði sagt mér frá fyrr um daginn, væri sennilega komin í hús og varð nú forvitnin feimninni yfirsterkari. Ég læddist fram ganginn og gægðist inn um dyragættina. Þarna sat liðlega tvítug kona sem geislaði af lífsgleði og var að segja frá ferðalaginu norður. Skyndilega leit hún upp og horfði á litla manninn í eldhúsdyrunum. Ég starði um stund á móti og fannst þetta hlyti að vera langfallegasta mamman í öllum heiminum. Svo var hún líka svo góð, því hún dró fallegan pakka upp úr ferðatöskunni og rétti mér, og hann var bæði með merkisspjaldi og mörgum slaufum.

Mamma að gefa pabba kaffi, en þarna eru þau á Ásfelli.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Hún fór snemma til náms í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands eins og hann hét þá, en varð að hætta námi 1958 þegar hún varð barnshafandi öðru sinni. Í mars árið eftir var hún þó sest aftur á skólabekk og lauk námi í maí 1962. Hún hefur starfað á ýmsum sjúkra- og umönnunarstofnunum svo sem Dvalarheimilinu Grund, Landspítalanum, Sjúkrahúsi Akraness, Kleppi og Vífilstöðum, lengst af þó á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, en allra síðast á Hrafnistu við Norðurbrún. Á námsárum sínum kynntist hún Óla Jakobi Hjálmarssyni frá Ásfelli við Akranes, en hann var á sama tíma að læra til læknis. Þau bjuggu þó aldrei saman en sambandið varði í rúm þrjú ár. Þau eignuðust saman tvö börn, þ.e. þann sem þetta skrifar og Sæunni, en slitu samvistum um það leyti sem systir mín fæddist. Þau voru þá enn bæði við nám og til þess að þau gætu haldið því áfram var mér komið í fóstur hjá móðurafa og ömmu á Siglufirði, en Sæunni hjá föðurafa og ömmu á Ásfelli við Akranes. Þetta átti í fyrstu að vera aðeins til bráðabirgða rétt á meðan þau væru að klára námið, en svo fór að við ílentumst bæði á umræddum stöðum. Ekkert meðlag eða neitt slíkt af nokkru tagi. Bara skipt jafnt og málið þar með endanlega afgreitt. Við þurftum þó í sjálfu sér alls ekki að kvarta því það var gott fólk sem hugsaði vel um okkur á báðum stöðum. Ég hitti móður mína ekkert mjög oft fyrstu árin og kynntist henni eiginlega ekki almennilega fyrr en ég var kominn á unglingsár, því miður.

Ég og pabbi á Siglufirði, sennilega síðsumars árið 1956.
Úr myndasafni afa og ömmu á Hverfisgötunni. Ljósmyndari ókunnur.

Ég veit að pabbi kom að minnsta kosti einu sinni til Siglufjarðar í heimsókn meðan þau mamma voru par, því um það vitnar myndin hér að ofan. Næsta skiptið sem við hittumst hefur líklega verið í ferðinni sem hér er fjallað um og síðan eftir það ekki fyrr en ég var orðinn 12 ára.

Mér hefur alltaf fundist það svolítið fyndið, en þó á sinn sérstaka hátt að hann sem verðandi læknir og síðan svæfingalæknir eftir að hafa farið í sérnám til Þýskalands og Danmerkur, skyldi velja sér verðandi hjúkrunarkonu sem væntanlegt kvonfang. Það entist þó ekki eins og kemur fram hér að ofan, en eftir fáein ár var hann giftur konu sem viti menn var líka hjúkrunarkona. Þau eignuðust fjórar dætur. Það hjónaband entist í u.þ.b. 15 ár, en fljótlega eftir það var hann aftur kominn í hnapphelduna og hvað nema með hjúkrunarkonu í þriðja skiptið og þar bættust þrjár dætur við.

Þetta minnir ansi mikið á rómantísku læknasögurnar sem einu sinni voru svo vinsælar.

Pabbi á sínum yngri árum.
Ljósmynd úr einkasafni Ásfellinga, ljósmyndari ókunnur.

Hann starfaði lengi sem svæfingalæknir á Landakoti, en þegar rekstrarformið breyttist þar, kom hann nokkuð víða við. Meðal annars leysti hann af lækna á einhverjum stöðum á landsbyggðinni, vann mikið með læknum sem ráku stofur í Glæsibæ og reyndar miklu víðar.

Eftir á að hyggja þá hef ég aldrei kynnst föður mínum, þessum feima og hlédræga manni sem vildi helst vera sem mest einn. Þó fara þær sögur af honum að þegar hann var kominn í hvíta sloppinn, hafi hann eiginlega skipt persónuleikanum út fyrir einhvern allt annan og orðið hinn skrafhreifnasti við sjúklingana.

„Ég heiti Óli Lokbrá“ á hann stundum að hafa byrjað kynningu sína á sjálfum sér við yngstu sjúklinga sína. Svolítið skrýtið að hugsa til þess, en það eru bara svo margir búnir að lýsa þessum hamskiptum fyrir mér að það verður tæpast hrakið.

Það sagði mér líka „ólyginn“ að þegar hann varð fimmtugur hafi hann farið akandi út úr bænum á sinni Volkswagen bjöllu með tjald, pylsupott, pylsupakka og tilheyrandi meðlæti og lét engan vita hvar hann myndi ala manninn þá helgina. Hann var mikið náttúrubarn og gekk mikið á fjöll. Eitt sinn þegar ég hitti hann spurði ég hvort hann hefði ekki gengið margoft á Esjuna.

„Ég hætti að telja þegar ég var kominn í eitthvað um  tvöhundruð skipti“ svaraði hann.

En þrátt fyrir að hann væri svona fáskiptinn veit ég að hann var besti karl, því fann ég mjög vel fyrir í þau fáu skipti sem ég hitti hann á lífsleiðinni.

Allur hópurinn samankominn. Frá vinstri talið: Leó R. Ólason vagnstjóri og ýmislegt fleira, Auður Agla Óladóttir jarðfræðingur, fimleikakennari og víóluleikari, Eva Óladóttir sérkennari, Sæunn Óladóttir sérkennari, Ylfa Rún Óladóttir læknir, Margrét Óladóttir sérkennari, kirkjuorganisti og bóndi, Katarína Óladóttir fiðluleikari og hjúkrunarkona, Iðunn Ása Óladóttir táknmálstúlkur og Helena Óladóttir umhverfisfræðingur.

Margur sveitungi minn hefur í gegn um tíðina talið mig vera einbirni, en þar er nú öðru nær. Það var líka algengt þegar ég var á barnsaldri að eldra fólk sem eftir að hafa spurt mig að nafni, spurði sonur hvaða Óla ég væri, og gerði þá fastlega ráð fyrir að sá maður hlyti að vera einhver sem það þekkti frá síldabænum.

Þann 29. apríl 2016 fór fram útför föður míns og þar hittumst við öll systkinin í fyrsta og eina skiptið til þessa. Við systkinin erum níu alls og ég er ákaflega stoltur af öllum þessum systrum mínum, enda einstaklega greindar og fjölhæfar allar með tölu.

Þetta reyndist mér sennilega erfiðasta útför sem ég hef verið viðstaddur. Ástæðan var fyrst og fremst sú að það sóttu svo fast að mér hugsanirnar um allar þær stundir sem aldrei urðu til en ég hefði viljað eiga með honum.

Útförin var einföld, látlaus og fór fram í kyrrþey að ósk hans sjálfs. Samt var dýptin og áhrifamátturinn í athöfninni svo mikill að hún líður okkur sem þarna vorum varla nokkurn tíman úr minni. Það voru ekki haldnar neinar uppskrúfaðar minningarræður, engin fallbyssuskot rufu kyrrðina og ekki var blásið í neina lúðra á torgum úti. Tjaldið féll bara eftir lokaþáttinn í leikritinu mikla, persónur og leikendur fundu til samkenndarinnar og kærleikans þegar náinn ástvinur er kvaddur og við nutum návistarinnar hvert við annað og fundum í henni huggun. Látleysið og lítillætið á það nefnilega stundum til að vera svo máttugt og mikilfenglegt.

En eins og áður sagði þá vorum við aldrei í miklu sambandi hvor við annan, ég og þessi einræni, duli og hógværi maður sem ég hefði svo gjarnan viljað þekkja miklu meira og betur en ég gerði. En ég veit samt að hann var miklum mannkostum búinn og vel meinandi, þó hann bæri ekki tilfinningar sínar á torg.

En svona verður þetta stundum þegar farið er svolítið bremsulaust af stað í ritleiðangur eins og þennan. Upphaflega ætlaði ég aðeins að skrifa svolítinn pistil um stutt ferðalag sem reyndist engu að síður nokkuð langt á sinn hátt og á sínum tíma, þegar aðstæður til ferðalaga voru með talsvert öðrum hætti en þær eru í dag. En það er svo hægara sagt en gert að setja punktinn fyrir aftan það ætlunarverk, þegar eitthvert óútskýranlegt afl sem býr einhvers staðar innra með manni segir að það þurfi að segja meira, og meira, og meira. – 

En segjum þetta engu að síður gott í þetta skiptið. 

Leó R. Ólason.

Heimildir: „Stolin krækiber“ / Dagbjartur Dagbjartsson, Gardur.is, Sæunn Óladóttir, Sæunn ingibjörg Sigurðardóttir.