Nú liggur fyrir að fyrsta haustlægðin er að koma inn yfir Norðurland og hefur Veðurstofan gefin út gula veðurviðvörun á Norðurlandi eystra frá miðnætti í nótt og fram til kl. 18:00 á morgun, mánudag. Þá mun taka við APPELSÍNUGUL viðvörun í sólarhring, þ.e. fram til kl. 18:00 á þriðjudag.
Það verður kalt í veðri og talsverð úrkoma með þessu. Viðvaranirnar eru aðallega vegna snjókomu og er ljóst að samgöngur geta raskast verulega, þá sér í lagi aðfaranótt þriðjudagsins.
Fólk er hvatt til að huga að þessu í sínu nærumhverfi og þá sér í lagi þá sem þurfa að fara um fjallvegi að vera rétt útbúin til þess varðandi dekkjabúnað.
Þá viljum við einnig hvetja bændur til að skoða sín mál varðandi búfénað og gera ráðstafanir telji þeir þess þörf.
Allar nánari upplýsingar er að finna á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar hverju sinni og hvetjum við ykkur öll sem þetta hret getur haft áhrif á að fylgjast þar vel með.