Samninganefnd SGS og Samninganefnd ríkisins hafa komist að samkomulagi um að endurskoða viðræðuáætlun milli aðila og stefna að því að ljúka kjarasamningi fyrir 15. september nk.

Meginástæðan fyrir þessari framlengingu er sú að á vettvangi heildarsamtaka launafólks er nú verið að ræða launaþróunartryggingu, breytt fyrirkomulag vinnutíma og fleiri veigamikil atriði. Þessi vinna hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og því er þessi endurskoðun nauðsynleg.

105.000 kr. eingreiðsla
Jafnframt hefur náðst samkomulag um að vegna þess hve langt er síðan gildistími síðustu samninga rann sitt skeið þá verði greidd eingreiðsla að upphæð 105 þúsund kr. fyrir fullt starf 1. ágúst 2019. Sú greiðsla er hluti af fyrirhuguðum launabreytingum þegar þar að kemur.

Um miðjan febrúar sl. gekk samninganefnd SGS frá kröfum sínum við ríkið en samningurinn rann út 31. mars sl. Viðræður hófust fljótlega eftir að samningar náðust á almenna vinnumarkaðinum, en eins og áður segir er nú stefnt á að nýr kjarasamningur verði tilbúinn eigi síðar en 15. september nk.