Í dag kl. 17.30 ætlar félagsskapurinn Hreyfing og hamingja í Fjallabyggð að standa fyrir göngu gömlu póstleiðarinnar upp í Siglufjarðarskarð og niður Skarðsdalinn. Fararstjóri er Harpa Hlín Jónsdóttir.
Á síðu hópsins segir “Gangan er ekki erfið en á fótinn alveg uppí Skarð, létta skó, stafir allt í lagi, 11-13 km, tekur um 3- 4 klst. Maggi hennar Mæju ætlar að keyra og sækja, kostar 800 kr. pr. mann með rútunni. þetta er 1. lýðheilsugangan af 4, sem Ferðafélag Íslands stendur fyrir til að virkja fólk út að ganga svo allir út að ganga. Mikilvægt að skrá sig á Hreyfing og hamingja í Fjallabyggð OG ATH mæting kl. 17.30 við Vallarhús”.
Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands (FÍ) verða vítt og breitt um landið nú í september og ætlar Fjallabyggð að vera með í ár eins og í fyrra.
Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði og verður brottfaratími frá kl. 17:00-18:00 eftir færð, veðri og gönguleið. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.
Allar upplýsingar um göngustaði vítt og breitt um landið má nálgast á heimasíðu FÍ.
Gönguferðir í Fjallabyggð verða birtar á heimasíðu Fjallabyggðar – viðburðadagatal.
Vonandi reima sem flestir á sig gönguskóna með okkur á miðvikudögum í september, fara út í náttúruna og njóta fallega landsins okkar.
Frétt og mynd: Fjallabyggð/ Hreyfing og hamingja í Fjallabyggð