Þann 30. mars var ánægjuleg stund í Grunnskóla Fjallabyggðar þegar nemendum 10. bekkjar voru veitt verðlaun fyrir sigur í Fjármálaleikunum 2022.

Leikarnir, sem eru spurningakeppni milli grunnskóla í fjármálalæsi, eru haldnir ár hvert og það eru nemendur í 8. – 10. bekk víðs vegar að af landinu sem taka þátt.

Þau Elsa Guðrún Jónsdóttir og Helgi Jóhannsson fulltrúar fjármálafyrirtækja komu í skólann og veittu nemendum verðlaunin sem eru farandbikar og peningaupphæð að upphæð 150 þúsund krónur. Nemendur bekkjarins hafa ákveðið að gefa hluta af upphæðinni til mannúðarmála í Úkraínu.

Framundan er síðan Evrópukeppni Fjármálaleikanna og mun bekkurinn tilnefna tvo fulltrúa til að taka þátt í þeirri keppni sem fram fer á netinu þann 10. maí.

Grunnskóli Fjallabyggðar hefur staðið sig vel í leikunum undanfarin ár en það er stærðfræðikennari unglingadeildar, Sigurlaug Ragna Guðnadóttir, sem heldur utan um keppnina.

Mynd/Grunnskóli Fjallabyggðar