Í gær, föstudaginn 25. október var vígður minningarplatti til minningar um flugslysið í Hestfjalli, Héðinsfirði 29. maí 1947.

Minnisvarði um þá sem fórust var reistur á slysstað árið 1997, þegar 50 ár voru liðin frá slysinu. Það voru þeir Björgvin Björnsson og Björn Arason sem voru hvatamenn að því, þá starfandi með Kiwanis.

Á þeim minnisvarða er sálmurinn sem er á minningarplattanum sem vígður var í gær.

Það eru þau hjónin Vaka Njálsdóttir, Björgvin Björnsson og börn þeirra, Njáll, Daði Steinn og Hrefna Katrín Björgvinsbörn sem gefa minningarplattann.

Á forsíðumynd eru þau hjón, Vaka Njálsdóttir og Björgvin Björnsson.

Minningarplattinn er á upplýsingaskilti um þennan sorgarviðburð í Héðinsfirði, við útskot þar sem aðgengi er gott.

Sálmurinn á minningarplattanum er:

Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.

Sálmur 139.9-10

Flugslysið í Héðinsfirði, sem varð þann 29. maí 1947 þegar TF-ISI, Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall í Héðinsfirði, er mannskæðasta flugslys sem orðið hefur á Íslandi en allir sem voru um borð, 25 manns, fórust.

Flugvélin var í áætlunarflugi frá Reykjavík til Akureyrar en á þessum árum var venja að fljúga sjónflug þar sem flugleiðsögutæki voru af skornum skammti. Vegna skýjafars yfir hálendinu var flogið norður yfir Arnarvatnsheiði og síðan til Skagafjarðar og út fyrir mynni Siglufjarðar en þaðan átti að fljúga vélinni inn Eyjafjörð.

Síðast sást til vélarinnar frá Siglunesi og flaug hún þá lágflug undir skýjum. Þegar vélin kom ekki til Akureyrar á áætluðum tíma og ekki náðist loftskeytasamband hófst leit að vélinni á sjó og landi. Leitarflokkur fór til Héðinsfjarðar en sá ekkert þar sem þoka lá yfir og ekkert sást upp í fjallshlíðar. Enn var þá byggð í firðinum en enginn varð slyssins var vegna þokunnar.

Morguninn eftir birti upp svo hægt var að hefja leit með flugvélum og kl. 8.20 sást flak hennar í hlíð Hestfjalls, norðan Héðinsfjarðar. Hafði vélin komið úr suðurátt og flogið beint á fjallið, splundrast og brunnið, og var þegar ljóst að enginn hefði komist lífs af.

Mjög erfitt var að komast að flakinu, enda er fjallið bratt og klettótt í sjó fram. Þó tókst að leggja bátum að, klifra upp í fjallið og ná líkum farþega og áhafnar og flytja til Akureyrar. Fjögurra manna áhöfn var á vélinni og 21 farþegi, þar af þrjú ung börn.

Myndir/Björgvin Björnsson.
Heimild um flugslysið í Héðinsfirði/Wikipedina