Íslandsmeistaramót í hrútadómum var haldið á Sauðfjársetrinu á Ströndum um helgina og samhliða fór fram Beint frá býli-dagurinn á Vestfjörðum í heilmiklu sölutjaldi.

Mikill fjöldi fólks mætti á svæðið, 400-500 manns komu yfir daginn og það var ljómandi góð stemming. Í kaffistofunni er jafnan gríðarlegt kökuhlaðborð á boðstólum á þessum dagi og Strandamenn og gestir þeirra eiga góða stund saman.

Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dölum er nýr Íslandsmeistari í hrútadómum, Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit varð í öðru og Hadda Borg Björnsdóttur á Þorpum við Steingrímsfjörð á Ströndum í þriðja.

Bæði Jón Þór og Hadda hafa áður hampað titlinum þannig að keppnin var hörð. Hadda er eina konan sem hefur unnið í keppninni til þessa, árið 2016, og Jón Þór vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2019. Í þessum flokki keppa þau sem kunna að stiga hrúta eftir kúnstarinnar reglum.

Í hinum flokknum keppa þau sem ekki kunna stigakerfið og getur hver sem er keppt í þeim flokki. Heimamenn grínast með að sá flokkur sé fyrir óvana og hrædda, en þar keppa þó margir sem þekkja til búskapar og sauðkinda.

Verðlaunahafar í þeim flokki voru Andri Snær Björnsson á Ytra-Hóli í Austur-Hún. sem bar sigur úr býtum, Kristvin Guðni Unnsteinsson 12 ára á Klúku við Steingrímsfjörð á Ströndum varð í öðru sæti og Sara Líf Stefánsdóttir á
Fagranesi í Langadal í Austur-Hún. var í þriðja. Alls tóku 65 manns þátt í keppninni.

Strandamenn fundu keppnina í hrútadómum upp fyrir tveimur áratugum og hún var nú haldin í 20. sinn.

Veglegir vinningar voru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum og Íslandsmeistarinn hlýtur farandgripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár. Þann grip gaf Búnaðarfélag Strandamanna til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna í marga áratugi.

Vinningar voru mjög veglegir í báðum flokkum, margvíslegt góss og gjafabréf frá aðilum sem styrktu Sauðfjársetrið um vinninga. Sumt virkar frekar sérkennilegt eins og skammtar af hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, en einnig gáfu Ístex, Lífland, Hraunsnef, Drangur á Drangsnesi, Búvís, Varma, íslensk.is, Erpsstaðir, Ásgarður, Matarbúðin Nándin, Kaupfélag Borgfirðinga, Galdrasýning á Ströndum, Pakkhúsið Vík, Vínlandssetrið, Heydalur, Háafell, Kraftvélar, Stóra-Fjarðarhorn og sundlaugin í Krossnesi í Árneshrepp vinninga í keppninni. Það var því til mikils að vinna.

Myndir/Sauðfjársetrið á Ströndum