Börn á aldrinum 0-14 ára eru 9% allra sem slasast í umferðinni og er barn sem farþegi í bíl í meirihluta þessara slysa.

Á hverju ári verða atvik í umferðinni hér á landi þar sem sérstakur öryggisbúnaður kemur í veg fyrir alvarleg slys á börnum.

Í myndbandi hér neðar er farið yfir mikilvæg atriði varðandi öryggi barna í bíl. Myndbandið er með íslensku tali og einnig textað á ensku og pólsku.

Að velja réttan búnað

Þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum.

Hér má finna bækling þar sem farið er yfir helstu flokka barnabílstóla.

Bakvísandi barnabílstólar

Öruggara er að hafa barn yngra en þriggja ára í bakvísandi barnabílstól þar sem höfuð þess er hlutfallslega stórt og þungt og hálsliðir þess ekki fullþroskaðir. Með því að nota bakvísandi barnabílstól eru minni líkur á alvarlegum áverkum á mænu og heila.

Að festa stól og barn rétt í bílinn

Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Barnið þarf að vera rétt fest í stólinn (athugið vel hæð og þyngd) og stóllinn þarf að vera rétt festur í bílinn.

Þegar stóll er keyptur er einnig hægt að biðja sölufólk verslunarinnar um aðstoð við að festa stólinn í bílinn. Auk þess þarf að gæta þess að bílbelti má ekki vera snúið og þarf að falla vel að líkama barnsins. Aldrei má setja belti fyrir aftan bak eða undir handlegg.


Hér má finna bæklinga um öryggi barna í bíl á mörgum tungumálum.