Júlíus Kristjánsson heiðraður á Fiskidaginn mikla 2018.

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg. Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðrar Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með skipstjórnarfræðslu á Dalvík.

Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra.

Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms.

Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.

Ragnheiður Sigvaldadóttir eiginkona Júlíusar tók við heiðursverðalunagrip fyrir hönd hans. Jóhannes Hafsteinsson smíðaði gripinn.

Dalvík 11. ágúst 2018

 

Frétt: aðsent
Mynd: Bjarni Eiríksson