Það var einu sinni… fyrir langa löngu…

… 11 ára gamall drengur sem bjó í fögrum firði.

Hann vaknaði alla virka daga sumarsins kl. 04.30.
Hann var eini sjómaðurinn í húsinu og situr aleinn í eldhúsinu og borðar hafragrautinn sinn, kíkir úr um gluggann og gáir til veðurs og labbar síðan niður á eyri og fer á skakið með afa sínum, á gömlu Freyju SI 33 trilluhorninu hans.

Þennan morgun fann hann ekki bússurnar sína, sem voru aðeins of stórar á hann.
Drengurinn fékk þær í arf frá eldri frænda sínum, fyrrverandi háseta á Freyjunni, sem bjó á efri hæðinni í sama stóra systrahúsi.
Mamma sjómannsins unga hafði enn einu sinni falið bússurnar niðri á stigapallinum í kjallaranum, henni fannst vera svo vond lykt af þessum háu sjóarastígvélum. Það var lyktarskyni hennar um að kenna að hann var kominn út á pall, þegar hann mundi eftir nestinu sem elsku mamma smurði seint í gærkveldi.

Drengurinn flýtir sér út og hann sér að afi er nú þegar mættur um borð og byrjaður að klappa Freyjunni sinni og bjóða henni góðan dag.

Andskotinn, það er blaka logn og sléttur sjór, hugaði drengurinn sem er haldin einkennilegri sjóveiki sem er verst í hægri ósýnilegri undiröldu, honum leið best þegar það blés mátulega og enn betur í almennilegu roki.

Því honum fannst svo gaman að stíga ölduna eins og alvöru sjómenn gera svo flott.

Viltu snúa í gang spyr afi…. neiii… ég held ekki, ég er hálfhræddur við þessa sveif og að hún handleggsbrjóti mig þegar hún slær til baka eftir að maður slær til eins og það heitir.

Ég get ekki farið á sundæfingar með gips afi.

Ók, ég skil vinur, en fylgdust með ljúfur. Svo tók afi fram lítið hvítt bómullar hvellhettuskot, með rauðri púður slettu lengst fram og svo stakk hann þessu í rassinn á gömlu góðu tryggu Volvo Penta vélinni. Hún hóstaði smástund, rétt á eftir að afi sló til og hann kippti snöggt upp hendinni áður en Freyja náði að þakka fyrir sig með því slá hann fast á handarbakið fyrir að vekja sig enn og aftur svona snemma morguns.

Hún hóstaði ámátlega eins og gömul berklaveik kerling, smástund, en hún náði sér fljótt á strik og söng síðan taktfast sitt gamla góða trilludægurlag.

Freyja SI 33, óyfirbyggð við bryggju. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Fyrir utan fjarðarkjaftinn, rétt norðvestan við Helluna drepur afinn á Freyjunni og lætur reka og þeir byrja að undirbúa handfærin og afi segir:
Sjáðu hér Nonni minn!
Reyndur afinn vildi færa fleiri alda gamla sjómanna kunnáttu sína um hvernig maður tekur landmið yfir í hausinn á ungum og óreyndum hásetanum sínum.

Þessi aldargamla sjómanna kunnátta er nú tínd og tröllum gefin og akkúrat þessi trilludrengur varð aldrei alvöru TRILLUKARL.

Þegar þú sérð klettinn þarna í Hestfjallinu og gilið stóra í Strákafallinu, þá eru hér 30 faðma dýpi og oft góður og vænn þorskur á þessum árstíma…

Ha Nonni, sérðu þetta?
Nonni minn?

Drengurinn svara ekki og er horfin inn í sjóveikisóra og það fer alveg ferlega í taugarnar á honum að akkúrat núna ómar eitt af hans uppáhaldslögum úr afaferðaútvarpinu sem er inni í litla trillustýrishúsinu.
Hávaxinn Siglfirðingur er að syngja með djúpri fagri rödd.

Á SJÓóóó…á sjó, þeir eru fræknir fiskimenn…
… 11 ára drengurinn hatar að geta ekki sungið með… með æluna í hálsinum.
En hann vill ekki í sínum minninga og draumaheimi neyðast til að tengja þetta lag við að vera með ælubragð í munninum.
Allar hans sterku barnaminningar sem heilinn á honum hafði hingað til skráð, höfuð alltaf lykt, bragð, tónlist, sól og regn og stundum vindátt líka.

Allt óréttlæti heimsins vellur yfir blessað barnið á einni og sömu stund í bongóblíðu og blaka logni.

Djöfullinn sjálfur og allir vinir hans…
… verður hann Þorvaldur endilega að syngja þetta flotta lag akkúrat núna og hann ætlaði að fara að segja við afa sinn, til þessa að að forðast það að þetta lag myndi festast í ælubragðaminningjum:

Afi geturðu ekki bara slökkt á þessu helvítis útvarpi?

Drengjahausinn hrekkur úr þessum sjóveikisþönkum því afinn ýtir elskulega við drengnum sínum, eftir að hafa séð að hásetinn hans er eitthvað svo annars hugar og fölur.

Er ekki allt í lagi vinur?

Nei afi, svarar afadrengurinn hans í pirringstón. Þessi djöfulsins undiralda er að drepa mig afi, ég mun aldrei geta klárað heila dag af þessu helvíti. Farðu bara með mig nær Siglunesi og svo syndi ég í land og svo labba ég bara heim á Sigló…

Afi hló við… elsku litli LJÚFURINN minn góði er þetta svona slæmt?

Drengurinn getur ekki svarað vegna þess að hálfur heimurinn snýst hægt og undiröldulega í óeðlilega hringi og ógleðin hafði aukist til muna. Hann tekur ekki eftir því að afinn er eitthvað að bauka með þessi tvö eða þrjú þorskatitti sem voru nú þegar komin um borð.

Nonni sjáðu, þetta er ÓSKABJÖRN!

Já og hvað!
Eins og ég viti ekki hvað þessi blóðsugu, krabba-kóngulóa-kvikindi heita sem býta sig fasta á tálknin á þorskum.

Settu hann undir tunguna á þér og þú finnur ekki fyrir sjóveiki það sem eftir er ævinnar segir afi grafalvarlegur á svip.

Drengurinn veit að afi hans er þekktur fyrir að vera góður leikari, trúir honum svona rétt mátulega, kallinn hlýtur að vera orðin elliær og gleymin, hugsar afastrákurinn sem hafði gleypt og geymdi allar hans afasögur í sínum unga haus. Man sá gamli ekki að hann sagði mér þegar ég var sex vetra að maður fengi þrjár óskir ef maður setti ÓSKABJÖRN undir eða ofan á tunguna.

Barnið er ekki vitlausari en svo og bæði veit og skilur það innst inni að afinn, þessi elska, er bara að reyna að fá hann til að hugsa um eitthvað annað en sjóveiki. En hann er svo þjáður og í svo aumkunarverðu ástandi að hann réttir fram höndina til að taka á móti Óskabirninum og er alveg til stinga honum upp í sig.

Því fyrr því betra.

Afi hlær svo mikið samtímis sem hann hendir óskabirninum fyrir borð að hann var næstum dottin aftur fyrir sig ofan í litlu Freyju lestina.

Þeir höfðu staðið báðir með aðra höndina á handfærarúllunni og náðu ekki að hvorki hlæja eða segja neitt meira, það rykkti eitthvað stórt og mikið í túttuönglana hjá þeim báðum.

Ægir var í miklu gleðigjafastuði og gaf þeim fimm, sex væna þorska í hverjum einasta drætti, það brakaði og söng í gömlu rúllunum næstu þrjá klukkutímana.

Drengjasjóveikin hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Aldraður afinn stundi annað slagið, reyndi tvisvar að kveikja sér í filterslausri Camel sígarettu, tókst það ekki og hann missti báðar í hafið.

Ótrúlegt, takk góði guð, Gústi Guðsmaður og allir hans vinir stundi afinn með jöfnu millibili og drengurinn vissi að Gústi, vinur hans afa, var líklega þarna rétt hjá, með sinn eigin ósýnilega háseta um borð, þeir félagarnir á Sigurvin voru örugglega að moka upp fiski líka.

Þeir tóku vart eftir því, fyrr en það byrjuðu að koma upp litlir rauðlitaðir þaraþorskar að þeir höfðu á rekinu, færst hættulega nálægt Siglunesi.

Þetta er búið, segir dauðþreyttur afinn, nú koma bara litlir, helvítis „kommúnista“ tittir.

Ég get ekki meira, ljúfur, mér er svo illt í öxlunum og handleggsvöðvunum, en þér, hvernig ertu vinur?

Afi, ég er kannski ungur, en ég hef æft sund sex sinnum í vikur síðan ég man eftir mér, segir barnið stoltur með fullorðinstón í röddinni… en ég er að drepast í puttunum, held ég geti bara ekki haldið í hníf og farið í það að gera að strax.

Heyrðu við skulum bara drífa okkur áleiðis heim og svo látum við reka inni við Selvík og gerum að í rólegheitunum og við getum líklega landað á bátabryggjunni rétt eftir hádegi.

Með útvarpið í botni byrja þeir að gera að en svo sér afi að hún undir-ALDA, tvíbura systur hennar BÁRU, byrjar aftur að stríða dóttursyni sínum kvikindislega.

Nonni minn!
Vissirðu að mávar geta ekki flogið ef þeir sjá ekki sjó?

Drengurinn ropar upp sjóveikisælubragði, lýtur upp og sér að allir mávar fjarðarins og líklega frændur þeirra úr Héðinsfirði líka, voru mættir í stærstu slóg-fermingarveislu sem þeir höfðu séð síðan Síldin fermdist, rétt áður en hún strauk að heiman og fannst aldrei aftur.

Þú platar mig ekki aftur, hugsar afastrákurinn og er eldsnöggur og teygir sig yfir lágan trilluborðstokkinn og grípur dónalega um hálsinn á tveimur af múkkafermingarveislugestum og kastar þeim fyrir framan lappirnar á afa sínum.

Karlinn öskrar og forðar sér aftur í skut.
Hvað ertu að gera drengur?

Stattu kyrr… og bíddu aðeins afi, ég er bara að gá hvort þú sért nokkuð að ljúga að mér.

Mávunum sem var boðið um borð í Freyjuna ,voru svo ókurteisir veislugestir að þeir byrjuðu að æla illalyktandi lýsidrullu framan í og yfir hvern annan, svona eins og Egill Skallagrímsson gerði þegar hann þakkaði gestgjafa sínum fyrir vondan mat, í leiðinlegu partý einhvers staðar nálægt Gautaborg í denn.

Mikið rétt þeir gátu ekki flogið, afi var að segja satt, því það var í rauninni ekkert sem hindraði þá í að bara taka flugið.

Viltu gera svo vel að henda þessum ælumúkkaviðbjóði fyrir borð drengur… meiri vitleysan í þér, ljúfurinn minn.

Þeir komu lang fyrstir í land og lönduðu stoltir guðsgjafaraflanum sínum. Afi stakk handskrifaðri löndunarkvittun í brjóstvasann.
Á henni stóð, Freyja SI 33, landað… : Þorskur 2640 pund.

Hvað eru það mörg kíló afi?
1.320 kíló, ljúfur, þetta var svakalega góður túr hjá okkur vinur.

Stoltur strákurinn var að spá í hvort hann ætti kannski að plata afa sin með sér upp í Kaupfélag til að halda upp á þetta með kók og prins póló. Sem myndi líka gera það að verkum að þeir gætu stoltir gengið saman niður alla Aðalgötuna með bússurnar uppbrettar eins og hann hafði séð á gömlum myndum að alvöru sjómenn gerðu í gamla daga.
Þeir gengu allir líka eitthvað svo sjóriðulega líkt hans eigin bússugöngulagi núna.

En hann sér að aldraður afi sinn lýtur þreytulega út.
Afi, hvíldu þig bara, ég skal smúla lestina… og múkkaæluna, sagði elskulegur afastrákurinn hálf skömmustulega.

Nei, nei ég geri það seinna í dag elskan mín góða, við skulum bara spássera í rólegheitunum heim til ömmu þinnar og fá okkur gott molakaffi… svo verð ég held ég bara að ég verði bara að fá mér kríu smástund.

Heyrðu, klukkan er ekki mikið ljúfur, þú nærð kannski líka leggja þig og samt ná því að fara á fótboltaæfingu á malarvellinum.

Ahhh… nenni því ekki í dag og líklega ekki heldur að fara sundæfingu klukkan sjö.

Drengurinn sat í lita eldhúsinu í sæta rauða bárujárnshúsinu á Vetrarbrautinni niðrá eyri og horfði með aðdáunar augum á afa sinn og ömmu sitja þögul saman og þau horfðu eitthvað svo elskulega á hvort annað.

Skrítið að lepja svona úr undirdiskunum og sjúga kaffið samtímis gengnum sykurmola í munnvikinu, hugsaði afa og ömmustrákurinn….

…og þó…

…. hann hafði reyndar séð þau bæði hreinsa Héðinsfjarðar silungshausa með sömu munnum sem þau kysstu hann með líka.

Svo mikið…
…. og oft. ❤️ 😘

Afinn í sögunni heitir Pétur Friðrik Baldvinsson. Hér er hann ungur í hlutverki sumarlöggu nr. 8 heima á Sigló. Sjá meira um Pétur Bald hér: JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN og SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR” Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Samsett forsíðu ljósmynd er unnin af höfundi og birt með leyfi frá Byggðarsafni Skagfirðinga.
Sjá meira um óskabjörn hér á Sarpur.is.

Aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”