Í nóvember 2024 gagnrýndi Hilmar D Valgeirsson eigandi Aðalgötu 6b í pósti sínum á Trölla.is bæjaryfirvöld harðlega fyrir aðgerðarleysi vegna rústanna sem standa eftir á lóðinni. Íbúinn bendir á að þrátt fyrir að málið hafi komið fram í fundargerð 852. fundi bæjarstjórnar, sé stöðunni lítt sinnt og takmarkaðar upplýsingar um framvindu málsins.
Sjá fundargerð frá 852. fundi bæjarráðs. ” Í framhaldi af erindi Hilmars D. Valgeirssonar, varðandi eignina að Aðalgötu 6, var bæjarstjóra falið að óska eftir áliti lögfræðings sveitarfélagsins vegna málsins. Með fundarboði fylgir álit lögfræðingsins.
Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við beiðni eigenda um uppkaup á eigninni. Bæjarráð beinir því til eigenda að tryggja að frekara tjón hljótist ekki vegna ástands hennar.”
Í gær tjáði Hilmar sig við Mbl og segir þar meðal annars.
Þar segir Hilmar sig horfa upp á gjaldþrot eftir að hús hans eyðilagðist í ofsaveðri í september árið 2023. Hann fékk hvorki bætur frá tryggingum né hamfarasjóði og Heilbrigðiseftirlitið á Norðurlandi vestra hefur sett þær kvaðir á hann að hann fjarlægi rústir hússins á eigin kostnað.
Eiganda gert að greiða fyrir niðurrif Aðalgötu 6 b
Frestur sem Hilmari var gefinn til að fjarlægja húsið er liðinn
Að sögn Hilmars er það mat sérfræðinga að það kosti margar milljónir króna að farga húsinu og braki sem liggur líkt og hráviði um allt við það.
Slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð segir að íbúum og eignum stafi hætta af húsinu.
Hilmar starfar sem sundlaugarvörður við íþróttamiðstöðina og segir að ekki sé nokkur leið fyrir hann að leggja út fyrir þeim kostnaði sem til þarf til að eyðileggja og farga húsinu. Húsið stendur við Aðalgötu 6b og er um 660 fermetrar að stærð. Hann bjó í húsinu sem hefur verið í eigu fjölskyldu hans um langa hríð. Um er að ræða gamalt frystihús sem reist var af Óskari Halldórssyni í síldarævintýrinu á þriðja áratug síðustu aldar.
Í febrúar síðastliðnum fuku þakplötur af húsinu á nærliggjandi hús. Meðal annars fuku þakplötur af húsinu á girðingu við grunnskóla.
Í ofsaveðrinu sem leiddi til þess að húsið eyðilagðist árið 2023 mældust vindhviður upp á allt að 49 metra á sekúndu.
Allir viðkomandi ótryggðir í málinu
Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir að íbúum og eignum stafi hætta af húsinu.
„Það fauk upphaflega af húsinu í september 2023 og svo aftur í febrúar á þessu ári. Í fyrra skiptið fór þak á hús, bíla og tún og í seinna skiptið fór afgangurinn af þakinu á hús,“ segir Jóhann.
Hann segir að í næsta nágrenni sé veitingahús, íbúðarhúsnæði og grunnskóli.
„Maður er eiginlega búinn að vera með hjartað í buxunum þegar djúp lægð hefur nálgast. Einn gaflinn er farinn af húsinu og því er það mjög ótraust,“ segir Jóhann.
Jóhann telur málið umhugsunarvert á marga vegu. Þannig greiða Náttúruhamfaratryggingar ekki tjónið þrátt fyrir að varðskipið Freyja hafi mælt vindhraða upp á 49 metra á sekúndu auk þess sem brunatryggingin nýtist ekki þar sem ekki varð tjón í bruna.
„Þannig að ef frekara tjón í húsinu verður sem skemmir út frá sér til þriðja aðila, þá eru allir viðkomandi ótryggðir í málinu,“ segir Jóhann.
Hann segir að bærinn hafi ekki heimild til að fara inn á svæðið og henda braki og öðru. Það sé svo pólitísk ákvörðun hvort bærinn verði við tillögu Hilmars um að taka við húsinu.
Þórir Hákonarson, settur bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir að leitað hafi verið álits lögfræðings varðandi það hvort bænum hafi verið stætt að kaupa eignina. Segir hann að talað hafi verið um uppkaup frekar en yfirtöku sökum þess að Hilmar hafi viljað fá hluta fasteignagjalda endurgreiddan.
Þá munum við ræða við manninn – segir bæjarstjóri
„Bæjarráð hafnaði því eftir að lögfræðingur hafði farið yfir málið. Málið er í ferli hjá heilbrigðiseftirlitinu og það eru ekki við sem erum að gera kröfu á manninn. Ég geri ráð fyrir því að málið endi á borði hjá okkur aftur ef ekkert verður brugðist við. Þá munum við ræða við manninn,“ segir Þórir.