Stórleikarinn Arnmundur Ernst Backman gefur út sitt fyrsta lag “Gangi þér allt að sólu” af væntanlegri breiðskífu og skrifar í leiðinni undir dreifingarsamning hjá Öldu Music.
Arnmundur vann lagið sem og alla breiðskífuna með Guðmundi Óskar Guðmundssyni.
Frá Arnmundi:
Undanfarin ár hefur tónlistin einhvernvegin læðst aftan að mér. Hún hefur auðvitað fylgt mér frá blautu barnsbeini í gegnum umhverfi mitt og fjölskyldu, en sá möguleiki að stíga gagngert inn í þennan heim hefur aldrei verið svo áþreifanlegur. Það var síðan fyrir um ári sem að ég fann að listin og lífið væru einmitt að leiða mig þangað.
Núna á föstudaginn er ég að gefa út mitt fyrsta lag. Það ber heitið Gangi þér allt að sólu og er eins konar heillakveðja. Lagið er svo partur af breiðskífu sem ég vonast til að geta gefið út seint á þessu ári eða í upphafi þess næsta.
Ég sem lög og texta sjálfur. Þau eru öll á íslensku en inntök textanna eru misjöfn, allt frá hvítum litum tilverunnar til þeirra dökku. Mér finnst við sem þjóð eiga svo mikinn og fallegan fjársjóð í tungumálinu okkar. Kannski er það vegna bakgrunns mín í leiklistinni, en ég uni mér virkilega vel við þá glímu að setja saman falleg erindi og ljóð. Og svo er það, að ég hef ekki enn samið eitt einasta ástarlag, sem verður að teljast afrek fyrir sig.
Ásamt tónlistinni heldur leiklistin áfram að eiga stóran hlut í mér. Við erum að hefja tökur á 6. seríu, takk fyrir, af Venjulegu Fólki – sem er búið að vera yndislegt ferðalag með frábæru fólki til sex ára. Ég fer svo til Frakklands þegar líða fer að hausti í tökur á kvikmyndaverkefni og er svo sjálfur með stuttmynd í farteskinu sem ég skrifa og leikstýri.
Lagið er komið í spilun á FM Trölla.