Það var síðsumars hrunárið 2008 að ég lét verða af því sem lengi hafði staðið til, en það var að ganga upp í hið dulmagnaða Afglapaskarð sem var í hugum margra Siglfirðinga svolítið óhugnarlegur staður vegna þeirra sagna sem því voru tengdar. Þegar á unga aldri heyrði ég stundum allt að því hvíslað í hálfum hljóðum um að þarna hefðu orðið hræðileg slys á öldum áður, menn og hestar hefðu farið skarðavillt og hrapað þar til dauða í hríð eða þoku þegar fara átti austur úr skarðinu, en þar tók aðeins við snarbrattur klettaveggurinn og urð fyrir neðan. Auk þess höfðu illir andar verið hraktir þangað og eflaust tekið sér bólfestu þar til frambúðar. Það var svo seinna meir að ég spurðist fyrir um hvort eitthvað hefði verið skráð af þessum umtöluðu slysum, en enginn gat bent mér á neinar aðgengilegar heimildir um þau. Aðeins að sagt væri að þarna hefði eitthvað slíkt gerst fyrir einhverjum árhundruðum.
Afglapaskarðið er því sem næst beint fyrir ofan síðustu beygjuna á gamla veginum sem liggur upp í Siglufjarðarskarð sem er í 630 metra hæð yfir sjávarmáli, og var lengi vel næst hæsti fjallvegur landsins á eftir Oddskarði. Á myndinni má sjá að þessi síðasti spölur var ekki alslæmur fyrir rúmum áratug, enda leiðin vinsæl meðal burtfluttra jafnt sem heimamanna. Ferðir um skarðið lágu síðan niðri að mestu eða öllu leyti í mörg ár eftir að Strákagöng voru opnuð, og veginum ekki haldið við þannig að hann varð illfær yfirferðar eða jafnvel ófær með öllu. Það var svo nokkrum árum eftir síðustu aldamót að áhugi vaknaði á að gera hann að minnsta kosti jeppafærann yfir sumartímann sem og var gert. Ég tel að hugmyndin hafi verið verulega góð og mjög svo túristavæn, en því miður er þessi möguleiki alveg úr sögunni sem stendur vegna framkvæmda við færslu skíðasvæðis Siglufjarðarmegin og jarðsigs Fljótamegin. Það væri eflaust gott og gæfulegt framtak að gera veginn yfir Siglufjarðarskarð jeppafærann á ný eftir að framkvæmdunum Siglufjarðarmegin lýkur. Í dag er þetta þó vinsæl gönguleið fyrir þá sem hafa áhuga og eru í sæmilegu formi.
Ekki varð ég var við neinn af þeim illu og óhreinu öndum sem er getið á upplýsingaskiltinu í skarðinu, enda eru þeir að sögn fyrir löngu síðan fluttir yfir í Afglapaskarð og eru þar væntanlega enn.
Á þeim ágæta vef snokur.is er sagt frá Afglapaskarði.
„Fjallshnjúkur sá er Skarðshnjúkur nefnist, en sunnan hans og norðan eru eggþunnir hryggir sem saman tengja háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan); er norðan hnjúksins Siglufjarðarskarð en sunnan Afglapaskarð. Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan. Uppi á ytri hryggnum, sunnan götu, er klettabrík ein að norðan hnjúksins er nú nefnist Altari. Mun nafn þetta hafa færst á brík þessa nýlega þá hrunið var og horfið “grjótaltari” það er þar var “byggt” 1735, þá fram fór hin fræga athöfn hér, bænir og vígsla, sakir hræðslu íbúa þessara byggða við ofsóknir hulinna vætta á leið þessari og víðar, er þá gekk svo úr hófi að heftar voru samgöngur að mestu. Varð hér þá til óheyrðra ráða að taka og var fjölmenni hér saman stefnt enda trúðu menn því hér að nokkuð væri óhættara síðan. Lifði þó enn í þeim kolum og bænir voru hér fluttar svo lengi, að vel muna það miðaldra menn“.
Upphaflega var fjallseggin þar sem Siglufjarðarskarð varð síðar gert, svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið sem opnaður var árið 1946. Sjálfu skarðinu er lýst þannig í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd.”
Þó að Siglufjarðarskarð væri örðugt yfirferðar mátti það þó kallast hlemmivegur borið saman við ýmsar aðrar torleiðir og það var eina þjóðleiðin er tengdi Siglufjörð sveitunum vestan fjalla. Mönnum þótti það því meira en bagalegt að ógnvaldur sá sem menn kölluðu loftanda skyldi svo að segja loka þessari leið um tíma. Enginn mannlegur máttur gat yfirbugað hann eða haft hendur í hári þessa meinvættar og engin vopn bitu á hann.
Í bókinni Íslenskar þjóðsögur og ævintýri segir: „Þorleifur Skaftason var lengi prestur í Múla í Þingeyjarsýslu og prófastur í sömu sýslu í nokkur ár. Þótti hann mjög fyrir prestum á sinni tíð í Norðurlandi flestra hluta vegna. Hann var maður mikill vexti og tröllaukinn að manndómi, raddmaður mikill og mælskumaður, sterkorður, og andheitur. Því var hann kjörinn af Steini biskupi til að vígja svokallað Siglufjarðarskarð er skilur milli Fljóta og Siglufjarðar yfir fjallgarð þann er sýslur skilur. Er það fjallgarður mikill og líðandi að vestan, en forbekki mikið að austan og brekkan sneidd krókagötum. Fjallið ofan er tindum vaxið og klettum helblám. Brún þess hin efsta er svo þunn sem saumhögg. Gegnum eggina liggja sem dyr, auðsjáanlega höggnar af fornaldarmönnumm með standberg á báðar síður. Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd. Yfir skarði þessu hafði legið síðan í heiðni, andi nokkur illkynjaður er birtist í strokkmynduðum skýstólpa er kom úr lofti niður ofan yfir hvað sem helst sem undir varð, maður, hestur eða hundur, og lá það dautt samstundis. Annmarki þessi varaði fram á daga Þorleifs prófasts Skaftasonar. Ferðaðist hann þangað að ráði Steins biskups og nokkrir prestar með honum og vildismenn. Hann hlóð altari úr grjóti annars vegar í skarðinu og hélt þar messugjörð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum í skarð það eður hraungjá er liggur sunnar í fjallsbrúninni og kallast Afglapaskarð. Þykir þar æ síðan ískyggilegt. Hefur og nokkrum sinnum vorðið þangað mönnum gengið í villu og bana beðið. Siglufjarðarskarð hefur aldrei síðan vorðið mönnum að meini. Mælti síra Þorleifur svo fyrir að hver sem yfir skarðið færi skyldi gjöra bæn sína við altarið, og mundi þá vel duga“.
Séra Þorleifur var prestur í Múla 1724-1748
Á öðrum stað segir að þar hafi safnast saman mikill mannfjöldi undir forustu Þorleifs og nokkurra vígðra manna þegar athöfnin fór fram, en eftirleiðis hafi þótt þótti bregða til batnaðar og ferðir yfir skarðið orðið mun öruggari en áður. Hefur síðan fararheill fylgt flestum þeim sem á annað borð rötuðu rétta leið. Það varð síðan siðvenja að ferðamenn gerðu bæn sína við altarið í skarðinu þegar þeir fóru milli Siglufjarðar og Fljóta. Þó er það svo að slys á ferðamönnum lögðust ekki með öllu af á skarðinu og hafa menn orðið úti á þessari leið allt fram á síðustu tíma. T.d. urðu þar tveir menn úti í aftakaveðri í marsmánuði árið 1903. Og fleiri slys og dauðsföll hafa átt sér stað, en þau eiga sér þó öll skýranlegar orsakir.
Þessar fjallseggjar, Skarðshnjúkurinn og Afglapaskarðið togaði í mig og ég klifraði því upp á brúnina austan Siglufjarðarskarðs. Svo var gengið af stað eftir egginni beint af augum og ekki hvikað frá henni. Það var klifrað yfir björg en ekki krækt fyrir þau og enginn afsláttur gefinn af markmiðinu. Svo sem ekkert sérlega skynsamlegt, en líklega einhvers konar áskorun eða bara léttrugluð della. Leiðin var misjafnlega ógreiðfær. Það skiptust á góðir og slæmir kaflar eins og gengur, en þetta var ekki langur spotti. Ég fór mér að engu óðslega, stoppaði oft til að njóta hins einstaka útsýnis, og tók auðvitað talsvert af myndum, enda nægt myndefni að hafa.
Áður en ég kom að Skarðshnjúknum gekk ég fram á þessi tvö lömb sem voru að næra sig hin rólegustu nokkru neðan við brúnina. Ég skil ekki alveg hvernig þau hafa komist þangað, því bæði ofan og neðan við þau er talsvert þverhnípi þó það komi ekki vel fram á myndinni.
Ég var nú nokkurn vegin á miðri leið og fram undan var Skarðshnjúkurinn. Snókur.is sagði að sunnan Skarðshnjúks og norðan væru eggþunnir hryggir sem tengdu saman háfjöllin og skildu botna Skarðsdals og Hraunadals. Það er óhætt að segja að nokkuð sé til í því. Alla vega þetta með eggþunna hryggi. Reyndar fannst mér þetta sums staðar minna helst á mæni á bröttu húsþaki.
Hnjúkurinn er verulega klettóttur í toppinn en ekki þýddi að fást um það. Því eins og áður sagði skyldi enginn afsláttur gefinn og því var farið beint yfir en ekki neitt á “skjön” við hann. Skipun dagsins var “beint af augum…”
Og þá var toppnum náð, en áfram var haldið. Það var þó ekki annað hægt en að gefa sér góðan tíma þarna og virða fyrir sér útsýnið. Það var gott skyggni þenna ágæta síðsumarsdag í ágúst og það bærðist ekki hár á höfði. Þetta var líka hápunktur ferðarinnar ef svo má segja, eða alla vega ef miðað er við metra yfir sjávarmáli, en hnjúkurinn er upp á 785 metra. En fram undan var síðan annar hápunktur sem var sjálft Afglapaskarðið.
Efsta beygjan á veginum Siglufjarðarmegin virtist vera langt fyrir neðan hnjúkinn þar sem ég stóð og útsýnið var frábært svo ekki sé meira sagt.
Og af því að skyggni var með allra besta móti, sást Grímsey alveg ótrúlega vel ofan af fjallinu.
Og loksins var komið að því að ég horfði ofan í hið óttalega Afglapaskarð. Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum fyrst í stað því það virtist ekki sérlega merkilegt að sjá, en það átti eftir að breytast þegar þangað var komið.
Ég klöngraðist niður af hnjúknum og stóð þarna loksins á hinum „fyrirheitna“ stað. Ef ég hafði orðið fyrir vonbrigðum með að það væri eitthvað lítilsigldara en ég hafði áður búist við, þá var sú tilfinning á bak og burt. Ég horfði lotningarfullur í kring um mig og fannst ég hreinlega finna fyrir sögunni. Skynja bændur með klyfjahesta silast upp úr Hraunadalnum og stefna til mín. Það var vetur, allt var skjannahvítt, hvergi dökkan díl að sjá og það gekk á með dimmum éljum auk þess að tekið var að rökkva og tunglið faldi sig á bak við ský. Við slíkar aðstæður getur verið erfitt að átta sig á landslaginu. Það verður einfaldlega allt eins, jörðin og himininn renna saman í einn einlitan flöt. Þeir líða hljóðlaust fram hjá mér, bæði hestar og menn og steypast einn af öðrum fram af þverhnípinu Siglufjarðarmegin. Ég skynja dauft óp áður en þeir brotna í urðinni fyrir neðan. Síðan verður allt kyrrt og hljótt.
Ég hristi þetta af mér og vakna upp af þessum drungalegu hugsunum. Árið er 2008 og það er milt og hlýtt sumar. Ég horfi niður yfir Skarðsdalinn og fjörðinn þar sem rætur mínar liggja. Þrátt fyrir að þetta sé ár efnahagshrunsins mikla þegar guð var beðinn um að blessa Ísland, þá er þetta góður dagur og ég ætla að njóta hans til hins ýtrasta.
Þetta skemmtilega lagaða bjarg stendur upp úr klettunum rétt neðan við brúnina og bendir eins og fingur til himins.
Ég heyrði skíðamann frá Siglufirði sem tók gjarnan þátt í Skarðsmótunum forðum daga, kalla þetta “skítuga skaflinn” sem bráðnaði aldrei alveg, en hann liggur til suðurs frá Skarðsdalsbotni. Það klikkaði aldrei snjór í Skarðdalnum á Skarðsmótunum meðan þau voru haldin, en ef það var eitthvað snjóléttara en gekk og gerðist, var bara farið hærra upp. Oft var keppt í þvergilinu við efstu beygjuna á veginum þar sem skítugi skaflinn er, og þá klifruðu menn upp snarbratta hlíðina og þess vegna alveg upp á topp Hákamba. Þetta var löngu fyrir tíma skíðalyftanna og gangan þangað upp með skíðin á bakinu mældist sléttir tveir tímar.
Eins og áður var ritað, er útsýnið með afbrigðum gott frá þessum dularfulla stað. Skarðsvegurinn hlykkjast upp dalinn eins og langur ormur og það sést vel í syðsta hluta kaupstaðarins. Til hægri á myndinni sést síðan vel ofan á Leyningsbrúnir.
Ég tíndi til nokkra steina og bjó til litla vörðu. Hún er ekki mjög stór, en nóg er af grjótinu þarna og segjum bara að mjór sé mikils vísir.
Svo virðist sem ekki leggi margir leið sína á þessar slóðir og þykir mér það heldur miður, en ummerki um mannferðir voru lítt eða ekki sjáanlegar. Ef hægt væri að halda betur á lofti þeim munnmælum eða sögum sem af staðnum fara, og gera hann “ofurlítið frægan” og þá í leiðinni forvitnilegri, væri það vel. Það gæti síðan orðið til þess að draga eitthvert “sófadýrið” í svolitla heilsubótargöngu, og þá væri vissulega betur af stað farið en ekki. Hins vegar tel ég þennan stað vera eina perluna í hinni miklu fjallafesti sem umlykur okkar ágæta bæ, þó hún sé nokkuð vel falin fyrir umræðunni. Fjöllin eru nefnilega vannýtt auðlind sem vert er að huga betur að, þrátt fyrir nokkra vakningu í þeim efnum að undanförnu.
Leiðin upp úr skarðinu til suðurs í áttina að Hákömbum var bæði klettótt og brött, en það stóð ekki til að fara lengra að sinni þar sem seint var farið af stað og degi tekið að halla. Já eiginlega var þetta bara hæfilegur áfangi að þessu sinni.
Eftir dágóða dvöl var kominn tími til að ganga af fjallinu, eða alla vega þessum hluta þess. Ég valdi að fara sömu leið niður og þeir ógæfumenn fetuðu upp fyrir nokkrum árhundruðum sem ekki auðnaðist að ná á áfangastað. Sú leið er létt til göngu og liggur niður að efsta legg Skarðsvegarins Hraundalsmegin og auk þess er stutt að fara. Þegar niður á veginn er komið er síðan örstuttur spölur upp í Siglufjarðarskarð.
Héðan sést vel yfir Skarðseggirnar sem er mjög skemmtilegt að ganga þó ég mæli alls ekki með þeim fyrir lofthrædda. Siglufjarðarskarð er næst, þá Skarðshnjúkur sem rís suður af því, en niður af honum hallar ofan í Afglapaskarðið.
Heimildir: Þjóðsögur Jóns Árnasonar, snokur.is, Wikipedia, fjallabyggd.is, Þingtíðindi, Jónas Kristjánsson, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, og vefsíðan leor.123.is
Samantekt heimilda, allur nýr texti og ljósmyndir: Leó R. Ólason.