Líkt og íbúar á Siglufirði og gestir hafa orðið varir við í sumar hefur vinna við snjóflóðavarnir í Hafnarfjalli verið í fullum gangi. Reglulega hefur þyrla komið til þess að ferja búnað og byggingarefni upp í fjallið í þessum 4. áfanga verkefnisins. Verkið felst í að setja upp stoðvirki úr stáli (e. snow bridges) á upptökusvæðum snjóflóða til snjóflóðavarna í N-Fífladölum og Hafnarhyrnu ofan byggðar á Siglufirði.

Fyrstu framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Siglufirði hófust árið 1998 með byggingu leiðigarða syðst í byggðinni sem leiða snjóflóð fram hjá byggðinni. Árið 2003 hófust framkvæmdir við þvergarða yfir allri byggðinni og 1. áfangi á uppsetningu stoðvirkja. Framkvæmdir við 2. áfanga á uppsetningu stoðvirkja hófst vorið 2013 og lauk haustið 2015. Framkvæmdir við 3. áfanga hófust svo haustið 2015 og lauk þeim 2018. Vinna við 4. áfanga sem hófst í fjallinu í vor hefur gengið vel og er á áætlun og því má þakka sú veðurblíða sem hefur verið í Fjallabyggð í sumar.

Elíasi Péturssyni, bæjarstjóra og Jóhanni K. Jóhannssyni, slökkviliðsstjóra bauðst að skoða framkvæmdina og mannvirkin úr lofti.

Heimild og myndir/Fjallabyggð