Um sjötíu grindhvalir strönduðu í fjörunni við Ólafsfjarðarhöfn í gær.
Hvalirnir höfðu áður synt inn í höfnina, en syntu síðan upp í fjöruna þar sem þeir festust.
Björgunarsveitir frá Siglufirði, Akureyri, Dalvík og Ólafsfirði mættu á staðinn og hófu þegar störf við að koma dýrunum aftur á flot.
Aðgerðum í Ólafsfirði lauk um klukkan 19:00 í gærkvöld, þá var komið flóð og auðveldaði það björgunarstarfið verulega.
Lára Stefánsdóttir, svæðisstjóri hjá björgunarsveitinni Tindi í Ólafsfirði setti eftirfarandi færslu inn á facebook eftir giftursamlega björgun grindhvalanna.
“Í mörgum aðgerðum hef ég lent með björgunarsveitunum en aldrei til að bjarga 60-70 grindhvölum. Svartsýn horfðum við á blessaðar skepnurnar engjast í fjöruborðinu og að dreif fjöldi manns, íbúar, ferðamenn, lögregla, björgunarsveitarfólk, slökkvilið. Eftir smástund komst fólk upp á lag með að draga skepnurnar út hverja á fætur annarri. Það flæddi að og sumar komust sjálfar. Ringlaðar reyndu skepnurnar fyrst að fara aftur upp á grynningarnar en björgunarsveitarmenn á jetsky og bátum héldu þeim frá og fylgdu þeim eftir út fjörðinn. Orðlaus stóð ég í fjörunni í lokin. Allir hvalirnir farnir, allir. Ótrúlegt. Örmagna björgunarfólkið stóð sátt í fjörunni”.







Myndir/Lára Stefánsdóttir