Daníel Pétur Daníelsson einn af forsvarsmönnum SíglóSöngva er afar ósáttur við ummæli í pistli sem birtist í tímaritinu Hellunni á dögunum. Trölli.is hefur gefið blaðamanni Hellunnar kost á að tjá sig um ummæli Daníels Péturs.

Sjá má færslu Daníels Péturs hér að neðan.

SiglóSöngvar – Svar til blaðamanns Hellunnar

Hellan er frjálst og óháð héraðsfréttablað hér í Fjallabyggð, þrátt fyrir að vera ekki áskrifandi hef ég flett blaðinu reglulega og að mínu viti hafa blaðamenn tileinkað sér að skrifa góðar og jákvæðar fréttir sem koma m.a. frá Siglufirði, Ólafsfirði og nærsveitum. Annað hljóð var í pistli í Hellunni í apríl 2024 útgáfunni (4. tölublað, 34. árgangur) en það er óhætt að segja að manni hafi brugðið við lestur greinarinnar „Varðveitum og höldum á lofti menningararfinum“ eftir Þórhall Ásmundsson, blaðamann Hellunnar, sem fjallaði að mestu leiti um tónleikana SiglóSöngva. Þessum pistli er ég tilneyddur til að svara.

SiglóSöngvar hafa verið haldnir í fjórgang og í þrígang hefur þemað verið lög tengd Siglfirðingum og Siglufirði. Um er að ræða viðamikla og metnaðarfulla tónleika þar sem fjöldi þátttakenda hefur mest verið 20 manns, sem eiga það sameiginlegt að vera íbúar Fjallabyggðar. Um síðastliðna páska var auglýst að þemað hefði verið brotið upp og yrðu flutt lög sem hafa gert það gott á vinsældalistum heima og erlendis. Líkt og lagt var upp með, þá skilaði það sér í að mun yngri aldurssamsetning var á þessum tónleikum en þeim fyrri. Á þeim fjölmörgu stöðum þar sem tónleikarnir voru auglýstir, gaf engin auglýsing það til kynna að gömlu siglfirsku lögin yrðu flutt en tónleikarnir voru m.a. auglýstir með eftirfarandi hætti:

“Um páskana ætlum við að venda okkur kvæði í kross og flytja stuð og stemningslög sem hafa gert það gott á vinsældalistum hér heima og erlendis. Það verður líf og fjör á sviðinu á Rauðku þar sem þema tónleikanna er einfaldlega “Hittarar”.

Gagnrýni er af því góða og fagna ég henni, hvort sem hún varðar SiglóSöngva eða eitthvað annað, enda býður gagnrýni upp á að hægt sé að gera gott betra. Það bar þó lítið á gagnrýni í pistli blaðamannsins sem hins vegar kallar tónleikana vörusvik. Sú staðhæfing er einfaldlega röng og mér þykir ákaflega leitt að blaðamaðurinn hafi ekki kynnt sér eðli tónleikana og hafi mætt á þá með aðrar væntingar. En að blaðamaður skuli ekki hafa unnið neina rannsóknarvinnu, hafi ekki haft samband við forsvarsmann SiglóSöngva og kynnt sér hvort að um raunveruleg vörusvik væri um að ræða áður en hann heldur því fram á opinberum miðli, er að mínu viti grafalvarlegt mál, og er blaðamaður að ósekju að að vega að heiðri okkar sem stöndum að þessum tónleikum og sverta nafn tónleikanna í leiðinni.

Það er ýmislegt fleira í þessum ágæta pistli sem kemur spánskt fyrir sjónir sem ég hef ekki hug á að ræða. En það óneitanlega stingur í stúf að blaðamaður virðist vega í annan gang að heiðri okkar sem stöndum að SiglóSöngvum með orðum sínum um fyrrum bæjarlistamann Fjallabyggðar er hann skrifar þó sú vitneskja væri til staðar að búið væri að ýta honum út úr þessum skemmtanageira. Það þarf blaðamaður að útskýra.

Það fæst ekki betur séð en að tilgangur þess að saka einstaklinga um vörusvik, sem ekki eru á rökum reist, sé ekki annar en að hafa neikvæð áhrif á þá sem eiga í hlut. Þrátt fyrir að Hellan sé frjáls fjölmiðill og blaðamenn megi hafa skoðunarfrelsi á hlutunum, þá hlýtur það að vera krafa og samfélagsleg ábyrgð miðilsins að blaðamenn séu upplýstir og fari með rétt mál. Ég harma því þessa birtingu í Hellunni og ég vona að slík illa ígrunduð og óvönduð einhliða vinnubrögð sem þessi, muni ekki tíðkast í framtíðinni í þeim ágæta miðli sem Hellan er. Að því sögðu kalla ég eftir afsökunarbeiðni frá blaðamanni og ritstjóra Hellunnar, ásamt uppbyggilegri gagnrýni og umtali um það fjölbreytta menningarlíf sem þrífst hér í Fjallabyggð.

Við í SiglóSöngvum munum halda ótrauð áfram við að skapa og bjóða íbúum og gestum Fjallabyggðar upp á hágæða tónleika með því frábæra listafólki sem við eigum hér í Fjallabyggð. Sjáumst næst um Verslunarmannahelgina á Kaffi Rauðku!

Fyrir hönd SiglóSöngva teymisins,

Daníel Pétur Daníelsson

Pistillinn hér að ofan hefur verið sendur til Hellunnar með kröfu um birtingu.