Sælu sveppir og sýra á Sigló!

Ég sel ekki þessa sögu dýrari en ég keypti hana… þegar ég sat á bjórsvamli með góðum vini. En þessi saga gerðist víst í miðju Covid skemmtanabanni og segir okkur ýmislegt um hvað það getur verið hættulegt að velmenntað ungt og bráðgáfað fólk hafi of mikinn tíma til að láta sér leiðast og hugsa um og framkvæma fáránlega og minnst sagt stórhættulega hluti. Þó svo að þeim sjálfum finnist þau eflaust vera að bjarga heiminum.

En mér skilst að þetta hafi byrjað í partý upp í Háskólagörðum og þar voru samankomin viðþolslaus ungmenni sem nú hittust sjaldan, vegna skyldumætinga í fjarnám. Allskyns verðandi fræðingar í: Sálfræði, læknisfræði, lögfræði, tölfræði, efnafræði og lífeðlisfræði, markaðsfræði og guð má vita hvað. Voru að rökræða um lífshamingju, nú þegar allar gleðistundir voru bannaðar með lögum.

Einn af sálfræðinemendunum benti á, að samkvæmt einhverri nýbirtri rannsókn telja Íslendingar sig vera hamingjusömustu þjóðina í heimi.

Ungur reffilegur læknanemi var hinsvegar fljótur að skjóta þessa öfgakenningu í kaf og benti á í sínum rökum að íslendingar ætu þunglyndislyf og gleðipillur eins og sælgæti. Tölfræðin sýnir minnst tvöfalda neyslu „per íslenskan haus“ miðað við aðrar norðurlandabúa, bætti ungur spekingslegur tölfræðingur við.

Hmm… 🧐 þessar tvær staðreyndir fara ekki alveg saman, það er varla hægt að segja að hamingja heillar þjóðar stafi af áköfu og langvarandi pilluáti?

Síðan skilst mér að þessir háskólakrakkar hafi farið út í að huga að lausnum og margir voru vel að sér og hrifin af umræðu í samfélaginu sem gáfu í skyn að ákveðið efni sem heitir Psilocybin, sem er víst til í sumum sveppategundum hafi mikil áhrif á þunglyndi og allskyns vanlíðan.

Er þetta ekki bara stór hættulegt og jafn ólöglegt og LSD? Algjörlega órannsakað bull og kjaftæði og ykkur getur ekki verið alvara með því lausnin sé blanda þessu eitri í vatnsból landsmanna og setja bara heila þjóð á sýrutripp.. og og og… hvað?
Sjá svo bara til, hvort að allir vakni bara daginn eftir með „Sumar í Sýrlandi“ í huga og sál. Glaðir og sáttir við lífið og tilveruna.
Er ekki í lagi með ykkur? Hrekkur út úr verðandi lögfræðingi, var mér sagt og svo bætir hún við til áhersluauka… Það er nú reyndar allt að lífstíðar fangelsi minnir mig, í hryðjuverkalöggjöfinni fyrir terrorista sem eiga við vatnsból.

Svo skilst mér að krakkarnir hafi séð að sér og ákveðið að takmarka þessa tilraun við ákveðin markhóp. Aðallega út af þeirri staðreynd sem einhver snillingur benti á eitthvað sem ætti að vera augljós öllum, nefnilega að saklaus börn þurfa auðvitað ekkert á þessu góða eitri að halda.

Ég þori varla að segja ykkur frá þessu… en svo er komist að niðurstöðu um að best sé að velja markhópinn vandlega, og hann á helst að búa á minni einangruðum stað með mikið vetrarþunglyndis myrkur. Gera svo spurningalista, um andlega heilsu og fela gleðiefnið í nýrri tegund af einhverskonar heilsubjór, sem markhópnum er boðið að drekka ókeypis.

Við gætum gert þetta í næsta páskafríi. En hvar?
Amma mín er frá Siglufirði, við gætum farið á skíði í Skarðinu samtímis, dettur þá út úr munninum á myndarlegum verðandi lífeðlisfræðingi.
Já, góð hugmynd,  fráfær skíðafjörður og mikið vetrarmyrkur þar. Svona var mér sagt að ákvörðun um að framkvæma þessa vitleysu hafi verið tekinn og allir nærstaddir látnir sverja þagnarskyldueið á staðnum.

En svo spurði ég heimildamann minn, hvort að þau hafi virkilega fylgt þessu eftir og er þetta ekki bara góð Covid saga sem hann er að ljúga að mér núna.

Nei, því miður, þau framkvæmdu þetta og nú var vinur minn farinn að hvísla að mér og lýta til hægri og vinstri til öryggis. Heyrðu, þau þekktu víst einhvern Bjössa Bruggara sem átti lítið brugghús og hann sá um bjórinn og aðrir um að blanda í gleðiefninu í mátulegu magni fyrir fullorðna. Áætlað var að áhrifin myndu byrja um klukkutíma eftir inntöku og  tripp-tími, hámark fjórar til sex klukkustundir.
Markaðsdeildin sá um að gera flotta merkingar á flöskurnar og trúverðugan spurningarlista, tölfræðingarnir um að skapa gagnabanka og svo var víst meiningin að fylgja þessu eftir í annarri skíðaferð um næstu jól með nýjum spurningalista um andlega líðan þátttakanda og þar á eftir áttu svo sál- og læknisfræðideild rannsóknarinnar að túlka niðurstöðu.

Guð minn almátturgur og hvað fengu margir Siglfirðingar í sig þetta eitur?
50 manns fengu bjór með psilocibyn og álíka stór samanburðarhópur fékk sama spurningarlista, en bara hollan heilsubjór.

En þetta gerðist sem sagt í fyrra og hvað var þessu fylgt eftir um síðustu jól?
Nei, auðvitað ekki, um leið og Covid kláraðist og krökkunum hætti að leiðast þá vildu allir bara gleyma þessari vitleysu og enginn vill viðurkenna hvorki fyrir sjálfum né né öðrum um að hafa tekið þátt í þessu. Enda yrðu allir með tölu reknir úr skólanum og líklega settir í steininn ef þetta kæmist upp.

Ég gekk út í Reykjarvíkurnóttina, enn með efasemdir um hvort að þetta væri satt eða bara góð lygasaga frá skemmtilegum vini sem myndi hringja á morgun og hlægja af mér fyrir að vera svona auðtrúa.
En hann hringdi aldrei og þá gat ég ekki stillt mig um að hringja í góðan vin sem býr á Sigló og segja honum frá þessu í trúnaði og ég spyr síðan hvort að hann hafi heyrt að eitthvað dularfullt hafi gerst í kringum síðustu páska.

Tja, ég man að um páskahelgina þá kom svona svakaleg vetrastillunótt, með blanka logni, fullu tungli og dansandi norðurljósum um allan fjörð. Algjör galdranótt og ég man að einhverjir voru að tala um að hafa séð fólk standa eins og það væri frosið við jörðina og stara upp til himins með gleðitár í augum,  sítuðandi eitthvað mantra, um fegurð og litadýrð alheimsins.
Aðrir sögðust hafa heyrt snjóinn, fjöllin og lognið tala við sig þessa svefnlausu nótt. Svo heyrði ég líka eitthvað um einhverja sem áttu samtímis hrikalega martraðanótt. Með sí endurteknum draumum um að heyra og sjá snjóflóð falla út um allan fjörð.

Ég veit ekki hvort það sé hér eitthvað orsakasamband við þessa lygilegu sögu sem þú heyrðir. Svona Siglfirskar galdranætur eru alveg ólýsanlega magnaðar og vekja örugglega upp skrítnar tilfinningar hjá fólki sem sér og upplifir þetta.

En mér vitanlega hefur enginn fengið varanlegan skaða af þessari næturupplifun.

Víglundur vitavörður, eignast vin í sjálfum sér.

Á síðustu öld, voru orð eins og áfallahjálp og kulnun ekki til og fólk læknaði oft sjálfan sig með áfengi, róandi reykingum og læknadópi. Sumir, eins og okkar maður í þessari sögu, fann aðrar einmannalega lausnir í að verða edrú og losna undan ánauð lífsins.

Víglundur Sigfússon var ungur háskólanemi, fæddur og uppalinn á rammíslenskum bóndabæ norðan heiða, nánar tiltekið í snjóþungum Fljótum í Skagafirði. Hans fyrsti vetur í Reykjavík var honum góður, hann varð ástfanginn af borg og stúlku og heimspekinámið var skemmtilegt. Hann náði sér í góðan aukaaur með þrælavinnu í útskipun og löndun, lífið lék við hann og framtíða lífsveðurspáin var bara nokkuð góð.
En lífið er oft eins og veðrið á Íslandi, mjög svo breytilegt.  Skyndilega á öðrum námsvetri Víglundar fór allt í belg og biðu. Kærastan fann sér annan að elska og henti honum út samtímis, bróðir hans dó í hræðilegu traktorslysi og ofan á allt veiktist ástkær móðir hans.

Áhyggjur og sorg hlóðust upp eins og stórir skaflar í huga Víglundar. Hann reyndi að skemmta sér úr þessu ástandi með ákafri drykkju, böllum í Glaumbæ og partýum þar sem hann kynntist hass reykjandi heimspekilegum hippum. Guðmundur Graskeri varð hans besti vinur og hann var með heilt apótek í vösunum alla daga. Pillur sem læknuðu angist, kvíða og svefnleysi. Rétt fyrir páska er okkar maður, skítblankur og algjörlega búinn á því, á bæði sál og líkama og situr og starir út í loftið í Kaffivagninum út á Granda. Fyrir tilviljun sér hann atvinnuauglýsingu í opnum Mogga á borðinu.

Vitavörður óskast!       

Já, er þetta ekki bara ágætis lausn fyrir mig, betra en að henda sér í sjóinn. Get tekið með mér námsbækur og lesið upp allt sem ég hef klúðrað, þurrkað mig upp í rólegheitum, komist í burt frá öllu þessu rugli og vandræðum…

Vitamálastjóri var reyndur karl og vildi fá vissu fyrir að þessi ungi maður skildi hvert hann væri að fara. Þú skilur það vinur, að þetta er einn afskekktasti viti landsins og þú ert þarna einn og yfirgefin svo mánuðum skiptir. Þeir koma með olíu og birgðir til þín rétt fyrir jól og páska og svo kemurðu heim í byrjun júní. Víglundi tókst að sannfæra þennan sjálfútnefnda vitamálasálfræðing um að hann væri heill á geði og vanur vetrar einangrun úr barnæsku norðan heiða.

Fyrstu dagarnir voru að mörgu leyti erfiðir, svefnleysi, svitaköst og fráhvarfeinkenni fóru illa í Víglund. Þögnin… þessi algjöra þögn var verst, næstum óbærileg, hér var ekkert lifandi sem gaf frá sér hljóð. Meira að segja gargið í sjávarfuglunum, tók vindurinn með sér út á ballarhaf.

Þessi helvítis þögn var að æra Víglund!

Hann reyndi að finna litla ferðaútvarpinu sínu stað, þar sem hægt var að heyra eitthvað annað en skruðninga og læti, en sá staður var ekki til í þessu vitavarðahúsi sem guð hafði gleymt. 

Ég hefði kannski átt að taka með mér eitthvað gott í kroppinn til að trappa mig niður… eða kannski hund eða kött að klappa.
En nú var of seint í rassinn gripið. Víglundur fann smá frið í föstum rútínum í vita og veðurathugunar skyldum sínum sem hann sendi á sex tíma fresti gegnum talstöð. Hann þurfti oft að býta sig í tunguna og þar með forðast að leyfa sér ekki að fara bara út í að bulla um daginn og veginn við þessa einu manneskjurödd sem hann heyrði í og tók embættislega við veðurlýsingum Víglundar vitavarðar.

 Án þess að taka eftir því fór Víglundur að tala við sjálfan sig. Þetta byrjaði sakleysislega og áður en hann vissi af var hann sítalandi.
Spurði sjálfan sig spurninga um líf sitt og líðan og það merkilega í þessu öllu var að einhver innri ungur ráðvilltur maður svaraði honum samviskulega.

Smátt og smátt eignaðist hann góðan vin sem hann saknaði svo sárlega. Vin sem virtist þekkja hann og skilja.
Hann var ekki lengur einn og yfirgefinn, það var eitthvað svo þægilegt að geta sagt:
Eigum VIÐ ekki að fá okkur kaffi…. Það er svo gott fyrir sálina að heyra hversdagslegar setningar með orðinu VIÐ.  
Maður er eitthvað svo einn og einangraður í orðunum, ÉG, um MIG, frá MÉR, til MÍN.  

Smásaman varð þessi innri maður Víglundar honum sýnilegur líka og honum brá ekkert við það heldur.
Þeir vinirnir tóku sig heilir og vel haldnir, gegnum langan harðan vitavarðavetur og um haustið tóku þeir upp þráðinn, þar sem frá var horfið í heimspekináminu og kláruðu það með glæsibrag.

Seinna skrifuðu þeir saman doktorsritgerð um uppruna heimspekikenninga, um hið flókna og margbrotna innra sálarlíf sem hefur fylgt mannskepnunni, allt síðan hún sagði upp starfi sínu sem uppréttur api og tók sér vinnutitillinn Homo Sapiens.

Lífið ehf. 5 stuttar sögur. 2 hluti

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmyndin og aðrar ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni Microsoft Word.

Heimildir:
Vitnað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í smásögunum.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

VERKJAVINAFÉLAG SIGLUFJARÐAR! SMÁSAGA

ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!

FRIÐFINNUR FINNUR FRIÐ

SIGURÐUR SÁLARLAUSI

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”