Fræðafélag Siglufjarðar hélt sinn fyrsta fræðslufund á Sigló Hótel í gær, fimmtudaginn 19. september.
Þórarinn Ævarsson fyrrv. framkvæmdastjóri IKEA hélt þar erindi sem hann nefndi gildi gagnrýnnar hugsunar. Skemmst er frá að segja að fundurinn tókst með ágætum, nærri 35 manns sátu fundinn og allmargir báru fram spurningar að erindi loknu.
Þórarinn fjallaði um mikilvægi þess að fólk sýndi sjálfstæða hugsun og gagnrýni í margskonar hversdaglegum viðskiptum. Leggja sjálfstætt mat á verslun og þjónustu og segja álit sitt hvort það er til að hróss eða lasts. Þá var Þórarni mjög tíðrætt um umhverfismálin og að bregðast við hinum augljósa vanda á raunsæjan hátt og taka ekki á móti aðgerðum stjórnvalda eða einstakra fyrirtækja án gagnrýni – og leita sífellt leiða til að ná sem bestum árangri.
Á forsíðumyndinni eru þau Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir formaður fræðafélagsins, Þórarinn Ævarsson fyrirlesari, Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir báðar í stjórn félagsins. Aðrir stjórnarmenn eru Anita Elefsen og Stefán Már Stefánsson.
Í vetur er gert ráð fyrir að þrír eða fjórir fyrirlesarar verði með erindi.
Stofnfélagar Fræðafélags Siglufjarðar eru þau Anita Elefsen, Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir, Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir og Stefán Már Stefánsson.
Félagið er opið öllum einstaklingum og ekki eru innheimt félagsgjöld. Þeir sem hafa áhuga á að ganga í félagið eða að fá nánari upplýsingar er bent á að hafa samband við Brynju með því að senda póst á netfangið brynjah66@gmail.com eða í síma 692-4697.
Myndir: Halldór Þormar