Gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum verður hætt í september og tekur ríkið við göngunum í haust. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Spalar, en einkahlutafélaginu Speli verður slitið eftir að göngin verða afhent ríkinu en ríkið ætlar ekki að ráða neinn til sín úr núverandi starfsmannahópi Spalar.
Sá möguleiki var ræddur fyrst á árinu 2009 að ríkið tæki við Speli og þar með göngunum og öðru sem tilheyrir rekstri þeirra og starfsemi félagsins. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu var hins vegar ákveðið í maímánuði 2018 að ríkið tæki við göngunum einum en ekki félaginu sem á þau og rekur.
Alls eru í gildi um 20.000 áskriftarsamningar Spalar og viðskiptavina félagsins um afsláttarferðir og í umferð eru um 53.000 veglyklar. Þá verður væntanlega í fórum fólks umtalsverður fjöldi afsláttarmiða sem eigendur geta framvísað og fengið endurgreidda eftir að innheimtu veggjalds lýkur.
Á vef Spalar kemur fram að veglyklar verði innkallaðir gegn greiðslu skilagjalds, viðskiptavinir fá greiddar inneignir sínar á áskriftarreikningum og greitt verður fyrir ónotaða afsláttarmiða.
Gert er ráð fyrir að uppgjörið standi yfir til loka ársins og að frágangi bókhalds og annars sem tilheyrir starfslokum og slitum Spalar ljúki ekki fyrr en á fyrsta fjórðungi nýs árs.
Frétt: mbl.is