Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga segir:

Það er gaman að fá gesti í heimsókn og í dag komu átján nemendur í VMA ásamt kennara sínum í heimsókn í skólann. Þetta voru nemendur í útivist og vörðu þau deginum við ýmsa íþróttaiðkun með nemendum MTR. Meðal annars var farið í feluskotbolta og ýmsa aðra leiki í íþróttahúsinu. Ráðgert hafði verið að fara í sjósund en í snjókomunni í dag myndaðist krapi á vatninu sem ekki þótti ákjósanlegur fyrir byrjendur svo hætt var við það. Þess í stað veltu krakkarnir sér upp úr snjónum og stungu sér í sundlaugina á eftir. Sundleikfimi eldri borgara var að hefjast og fengu nokkrir nemendur góðfúslega að slást í hópinn. Ekkert kynslóðabil þar. Eftir pizzaveislu í hádeginu var skoðunarferð um skólann og eftir það hélt hópurinn heim á leið.

Heimsóknir sem þessar eru gagnlegar og skemmtilegar. Nemendur fá tækifæri til að hittast og kynnast skólum hvor annars. Engar svona ferðir hafa verið síðan Covid brast á og því kærkomin tilbreyting fyrir nemendur að geta loksins brugðið sér af bæ. Heimsókn nemenda Verkmenntaskólans er að frumkvæði íþróttakennara skólanna, Birnu Baldursdóttur og Lísebetar okkar Hauksdóttur en þær þekkjast frá fornu fari. Stefnt er að því að endurgjalda heimsóknina sem fyrst.

Smellið hér til að skoða myndir frá deginum.

Mynd/Lísbet Hauksdóttir