Björgunarsveitir í Eyjafirði og á Siglufirði voru fyrr í kvöld kallaðar út vegna fjögurra göngumanna sem treystu sér ekki lengra þar sem þau voru á göngu í Siglunesmúla, milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Göngufólkið var þá statt í svokölluðum Nesskriðum og höfðu verið á göngu í þó nokkra klukkutíma. Ekkert amaði að þeim annað en að þreyta var farin að setjast að og þau voru farin að kólna.
Björgunarfólk var ferjað á björgunarskipinu Sigurvin út Siglufjörð, ásamt því sem nokkrir slöngubátar voru notaðir til að ferja björgunarfólk frá Sigurvin í land.
Fljótlega eftir að Sigurvin var kominn út á fjörðinn sást til fólksins. Björgunarfólk var flutt í land á slöngubátum og kleif hlíðina til fólksins. Þegar björgunarsveitarmenn höfðu metið aðstæður var ákveðið að fylgja fólkinu aðeins norðar, í þá átt sem þau höfðu komið úr, þar sem var álitlegri leið til niðurgöngu.
Vel gekk að koma fólkinu niður í fjöru, en til að tryggja öryggi allra voru tryggingar settar upp við niðurgönguna.
Göngufólkið er nú komið um borð í Sigurvin sem flutti þau til Siglufjarðar.


Myndir/aðsendar