Í nýliðinni viku lét Oddgeir Reynisson af störfum sem útibússtjóri Arion banka í Fjallabyggð. Trölli.is fékk stutt einkaviðtal við Oddgeir af því tilefni.

Oddgeir er mikill reynslubolti í rekstri fyrirtækja og stjórnun, viðskiptafræðingur að mennt, var í 8 ár rekstrarstjóri hjá símafyrirtækinu Nova, eftir að hafa verið “operation manager” hjá Flögu þar sem hann starfaði við markaðsmál, frumkvöðlamál og deildarstjórn.  Þar áður var Oddgeir fjármálastjóri hjá Nesskip, stærsta “bulk” flutninga fyrirtæki á Íslandi, “fyrirtæki sem enginn veit um en samt mjög flott fyrirtæki” segir Oddgeir.

Oddgeir hóf störf hjá Arion banka þegar hann gerðist útibússtjóri í nýju útibúi Arion banka í Fjallabyggð síðla árs 2015.

Ætlaði aldrei í bankageirann, en langaði að koma hingað norður og sótti þess vegna um hjá Arion banka.

Hann er mikill keppnismaður, áhugamaður um markaðsmál og ferðaþjónustu, stóð m.a. fyrir því að á Siglufirði var haldinn fyrirlestur um markaðssetningu og auglýsingatækni, þar sem a.m.k. 50 manns mættu.

Oddgeir þykir góður stjórnandi, líflegur og jákvæður, vill t.d. að menn læri af þeim mistökum sem verða í stað þess að refsað sé fyrir þau.

Það sem skiptir öllu máli í vinnu, sem oft er 8 til 10 tímar á dag, og þess vegna stór hluti mannsævinnar, er líðan starfsmanna, að þeim líði vel, segir Oddgeir. “Til að veita góða þjónustu þarf fólkinu að líða vel, það er alveg grundvallar atriði og umhverfið þarf að vera uppbyggilegt og hvetjandi. Það hefur verið gaman að vinna að uppbyggingu svæðisins og vinna með flottu fólki, mikill kraftur hérna” segir Oddgeir.

Hann kom inn í erfitt starfsumhverfi og var að eigin sögn ekki vinsælasti maðurinn í bænum lengi vel, út af því hlutverki sem hann fékk hjá Arion.
(Eins og margir vita var útibú Arion í Ólafsfirði lagt niður nýlega.)

Nú hyggst Oddgeir flytja frá Siglufirði af persónulegum ástæðum, ætlunin var að flytja til Siglufjarðar með fjölskylduna, en af ýmsum ótöldum ástæðum varð ekkert af því.

Oddgeir kveður Siglufjörð, sáttur, og með kveðjuorðunum: “Það er geggjað að búa í Fjallabyggð”.

Texti og mynd: Gunnar Smári Helgason