Vinna við seinni hlutann á þakviðgerðinni á Tónlistarskólanum á Tröllaskaga, Siglufirði er nú í fullum gangi. Þakið hafði sigið, verið er að lyfta upp þakgrindinni og hækka þakið en fyrri hluti verksins var unninn í fyrra. Verkið hefur gengið vel og eru það verktakarnir L-7 sem sjá um verkið. Tónlistarskólinn er í 103 ára gömlu húsi sem hefur gengið undir nafninu Norska sjómannaheimilið, á það sér langa og merka sögu.

Verkið gengur vel

 

Leó Ólason ritaði þessar upplýsingar um Norska sjómannaheimilið í tilefni af 100 ára afmæli þess árið 2015.

“NORSKA SJÓMANNAHEIMILIÐ
Norska sjómannaheimilið var reist um sumarið 1915 og verður því 100 ára í ár. Það mun hafa verið teiknað og sniðið til í Haugasundi í Noregi eins og eins konar einingahús, allt burðarvirki þess kom númerað til endanna og því var raðað saman eftir þeim.
Í upphafi voru steinsteyptar tröppur og útidyr á miðri framhlið hússins, en tröppurnar voru brotnar niður sennilega á sjöunda áratugnum. Dyrnar voru þó notaðar áfram af Tréverksmönnum til að geta komið stærri smíðisgripum þeirra úr húsi og beint út á vörubíls pall.

Það hýsir nú Tónskóla Siglufjarðar á efri hæðinni, en á undan var þar trésmíðaverkstæðið Tréverk. Þar var einnig fyrsta sjúkrahúsið á Siglufirði. Í kjallaranum hefur verið fiskbúð frá því löngu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var þar Petersen og þá var gengið inn í hana að sunnanverðu og eru þær dyr ennþá á sínum stað. Síðan var rekin þar Fiskbúð Kjötbúðar Siglufjarðar svo undarlega sem það hljómar, en þar var Jósafat verslunarstjóri. Ekki veit ég hvenær innganginum breytt og farið var að ganga inn í búðina að vestan, en líklega hefur það verið meðan Jósi var viðloðandi reksturinn. Jósi og Böddi tóku síðan við og eftir þá Eysteinn, Guggi og Salli. Nú rekur Eysteinn Fiskbúð Siglufjarðar sem er mun merkilegri búð en allt of margir gera sér ekki grein fyrir og hún er nú orðin eins konar minnisvarði fyrir verslunarhætti sem eru orðnir harla fáséðir.

Þann 10. apríl 1915 birtist eftirfarandi grein í blaðinu Norðurland undir yfirskriftinni
SJÚKRAHÚS Á SIGLUFIRÐI.
Den norske Sömandsmission ætlar að láta byggja í sumar mikið og veglegt stórhýsi á Siglufirði. Það á að standa rétt hjá símastöðinni þar, verður tvílyft með portbyggingu, 30 álna langt og 22 at. að breidd. Húsið skiptist í deildir og í því verður rúm til guðsþjónustu eða einskonar kirkja og herbergi fyrir tvo presta. Annar hluti þess er ætlaður fyrir veitingasal með lestrarherbergi og skrifstofu, þar sem menn eiga hægan aðgang að geta skrifað bréf og annað smávegis, en í veitingasalnum verða á boðstólum með vægu verði, kaffi, óáfengir drykkir og matur. Þriðji og mesti hluti hússins verður sjúkrahús. í þeim hluta þess verður bústaður fyrir yfirumsjónarmann alls hússins, herbergi fyrir hjúkrunarkonur, skrifstofa og lyfjabúð fyrir lækni, skurðarstofa, vandað baðrúm eftir nýjustu tízku, sem almenningur fær aðgang að gegn sanngjörnu verði, og sjúkrastofur með samtals 20 rúmum. Allur frágangur og útbúnaður hússins verður hinn vandaðasti, vatnsveita um það allt, skolpræsi frá nær því hverju rúmi, vatnssalerni nægilega mörg o. s. frv. Umsjón með byggingu þessa stórhýsis og alla yfirumsjón með framkvæmdum er að því lúta, hefir hr. O. Tynes kaupmaður á Siglufirði, norskur maður að ætt, en búsettur á Siglufirði nokkur síðastliðin ár, kvæntur íslenzkri konu og íslenzkur orðinn í orði og verki. Það mun áreiðanlegt að það er eingöngu hr. Tynes að þakka, að þetta komst í framkvæmd, og enn fremur hefir Norðurland heyrt að hann hafi fyrstur hreyft hugmyndinni um það. Bygging slíks húss og þetta er hið mesta þarfaverk og óskar blaðið Siglfirðingum til hamingju með það. Allir sjúklingar fá aðgang að sjúkradeildinni meðan rúm leyfir, hverrar þjóðar sem eru. Fyrst um sinn mun þó húsið aðallega verða opið til afnota fyrir almenning yfir sumartímann, meðan síldveiðin varir, en ef nauðsyn krefur verður hægt að fá sjúkraherbergi til afnota á hvaða tíma árs sem er”

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Samantekt: Leó Ólason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir