SÖFNUNARÁRÁTTU INNGANGUR

Við höfum eflaust öll í okkur tilhneigingu til að safna einhverju. Flestir láta sér næga að eiga nokkur stykki af hinu og þessu, en aðrir safnarar, eins og t.d. ég sjálfur, virðast vera haldnir einhverskonar söfnunaráráttu, þar sem þetta tekur engan endi og fer út í öfga sem endar með því að allir heimilisveggir heima hjá mér, eru þaktir í hillum með t.d. gömlum myndavélum og grænu gleri.

Aðrir safnarar sem ég þekki eru með síldardósir, dúkkuhús eða… herðatré í þúsundatali upp um alla veggi.

Ég, sem hef verið svo duglegur við að sýna lesendum trölli.is annarra manna söfn, hef oft verið spurður… og hvenær fáum við að sjá þitt eigið myndavélasafn sem þú býrð í ?
Tja… ég hef hingað til verið hálfhræddur við það og hugsað sem svo að ímynd mín og orðrómur sé nú nægilega slæmur fyrir og að bæta þessu BLÆTI við, (sama og enska orðið fetish) myndi bara staðfesta endanlega fyrir öllum að nú sé ég orðinn varanlega klikkaður.

En þið getið líka séð ýmislegt af því sem ég hef safnað heima á Sigló í Saga Fotografica ljósmyndasögusafninu. Því þar eru ljósmynda og söfnunaráráttu skilningsríkt fólk eins og Baldvin Einarsson og eiginkona hans Ingibjörg Sigurjónsdóttir.
Þar fyrir utan veit safnvörðurinn Steingrímur Kristinsson allt um þessi gömlu tæki og tól.

Ég hef gefið safninu heima á Siglufirði ýmislegt, meðal annars risastóra atvinnumyndavél sem blasir við gestum þegar það opnar hurðina hjá Saga Fotografica og líklega sendi ég þetta til þeirra til þess að skapa pláss í mínu eigin safni/heimili og ég er auðvitað meðvitaður um viðbrögð þeirra sem koma í heimsókn til mín, því það eru 150 sýnilegar myndavélar hér inni í 50 fermetra íbúð…. hinar 250 eru í kössum niðri í geymslu.

Ég minnist þess að í barnæsku safnaði ég ýmsu, ég var oft með göt á buxnavösum, því ég var alltaf að finna fallega steina út um allt.
Svo safnaði ég fuglaeggjum um tíma og frímerkjum og líka Jesús biblíumyndum frá barnasamkomum í Zíon og ég bætti svo við í það safn árituðum Jesúsmyndum frá Gústa Guðsmanni.

Við bræðurnir gerðum heiðarlega tilraun til að safna flugvéla og herskipa módelum en okkur tókst það aldrei.
Amma Nunna gaf okkur oft allskyns plast módel að dunda við að líma saman og mála í auka afmælis- og jólagjafir, en svo varð það hefð að við sprengdum flottar flugvélar og herskip frá síðustu jólum í loft upp með heimatilbúnum flugeldasprengjum.
Líklega gerðum við þetta til að skapa pláss í villimannadrengjaherberginu okkar sem við deildum bróðurlega í mörg herrans ár. Amma kom reglulega í óvænta heimsókn og tók svo vel til í okkar skipulagða kaos herbergi að við fundum ekkert þar inni í fleiri vikur á eftir.

ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

Í lítilli íbúð verður maður að skapa hillupláss í og ofan við stofuglugga. Þarna má sjá ýmsar stærðir og gerðir af Kodak myndavélum og slatta af grænu gleri.

SUMT TEKUR PLÁSS OG ANNAÐ EKKI…

Já sumt sem ég safna tekur pláss og annað ekki. Því fyrir utan myndavélar, allskyns tæki og tól sem notuð voru til þess að sýna myndir… og grænt gler. Safna ég líka sænskum síldarsögum sem tengjast síldveiðum Svía við Íslandsstrendur, með tilheyrandi ljósmyndum í þúsundatali.
Þunnur pappír og stafrænt skannaðar myndir taka ekki mikið pláss sem betur fer.

Ég hef verið iðinn við að segja ykkur lesendum hér á trölli.is frá öðrum söfnurum og þeirra áráttu og hér undir nefni ég nokkur dæmi að ónefndu Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem er það safn sem ég heimsæki oftast, þökk sé áratuga ljósmyndasöfnunaráráttu Steingríms Kristinssonar, stofnanda safnsins.

Sumarið 2020 skrapp ég í heimsókn djúpt inn í Smålands skógana og hitti þar aldraðan myndavélasafnara vin minn og í sama húsi var vinur hans með heilmikið safn af herðatrjám. Sjá meira hér: FERÐASAGA: HEIMSÓKN Í MYNDAVÉLA OG HERÐATRJÁASAFN

Í fyrra sumar komst ég að því að Lena nágranni minn hefði mjög svo sérstakt áhugamál.

Lena nágranni minn býr til og safnar dúkkuhúsum. Hún leggur allan sinn frítíma og heilmikinn pening í að skapa flott “míníheimili” fyrir dúkkurnar sínar. Sjá meira hér: ÁHUGAMÁL NÁGRANNANS: DÚKKUHÚSAHEIMUR

1500 SÍLDARDÓSIR INNI Í STOFU

Haustið 2018 fór ég í heimsókn til Henriks Harnevie í Lysekil og það var merkileg upplifun. Þarna inni í stofunni hans fannst mér gott að fá að upplifa að einhvern annar var “skrítnari” en ég sjálfur sem er bara með 150 myndavélar heima hjá mér. En þannig er það oft að við manneskjur getum haft fordóma um fólk sem leggur svo mikinn tíma í að safna einkennilegum hlutum.

Það sem ýtti við mér að skrifa þessa grein um drauma í síldardósum var að þegar ég var á heimleið frá Sigló í sumar kom ég við í Lysekil og þá sé ég risastóra 25 kg síldardós í búðarglugga í miðbænum. Þessi búð var aldrei opin en vinkona mín sem býr þarna kom mér seinna í samband við eigandann og ég keypti af honum dósina. Hann var ekkert sérstaklega viljugur til að selja mér dósina en þegar ég sagði honum að ég myndi gefa Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði þessa merkilegu dós, þá lét hann mig fá hana á skikkanlegu verði.

Gegnum þessi dósakaup komst ég í kynni við merkilegan mann sem heitir Henrik Harnevie en hann safnar síldardósum og er með um 1.500 dósir í skápum í stofunni heima hjá sér í Lysekil. Henrik hefur einnig skrifað bók um niðursuðuverksmiðjur, dósagerð og dósaprentun í Lysekil.

Þessi stóra síldardós er nú til sýnis á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði.

Til gamans má geta fyrir forvitna Siglfirðinga sem kannski spáðu stundum í hvað var gert við alla þessa síld sem við tróðum í tunnur heima á Sigló að í heimildum frá 1962 (fæðingarár mitt og Henriks) búa um 13.000 mans í bæjarfélaginu Lysekil.

Um 600 mans hafði atvinnu í síldarverksmiðjum, 378 vinna við dósagerð og umbúðaframleiðslu og síðan bætist við um 100 manns vinnur við umbúðahönnun og prentun á blikkdósum.

Þetta var stór og mikilvægur iðnaður sem var mjög háður innflutningi á góðri síld og hrognum í kavíargerð frá Íslandi.

Þessi síldardósaheimur er meira og minna horfinn í dag.

Sjá meira hér: DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

VERÐMÆTT GAMALT DRASL, EÐA ?

Það hefur ætíð verið viðurkennt að margir safna t.d. listaverkum sem fjárfestingu í von seinni tíma verðmætaaukningu, þá sérstaklega ef listamaðurinn verður frægur eða deyr, því þá verður ekki framleitt meira og það sama gildir um myndavélar. Sumar eru verðmætar vegna þess að þær voru framleiddar í fáum eintökum og svo er það staðreynd að sum myndavélamerki eru sjálfkrafa verðmætari en önnur og það snýst oftast um gæði og endingu. Linsurnar voru t.d. oft þrisvar sinnum dýrari en sjálf myndavélin.

Ég sjálfur hef ekki safnað í neinum sérstökum tilgangi, hrifning mín á gömlum myndavélum snýst oft um að þetta var flókið tæknilegt ferli á sínum tíma og það liggur alveg ótrúlega mikil handavinna í framleiðsluferlinu og já, ég hef vissulega oft dottið niður á og keypt furðulega sjaldgæfar og sérstakar sænska atvinnumanna myndavélar og líka sérútbúnar vélar sem voru notaðar í njósnastarfsemi og í hernaðarskyni. Flestar af mínum myndavélum eru þó fjöldaframleiddar og persónulega finnst mér einstaklega gaman af að eiga nokkuð margar ólíkar tegundir af KODAK myndavélum.
Sumar eru frá byrjun 1890 og allt fram til endaloka þessa risastóra alheimsfyrirtækis.

Hér getið þið kíkt á nýlega grein í Glicko.me um síldardósasafnarann Henrik sem seldi húsið sitt í Lysekil og keypti gamlan sveitabæ með tilheyrandi útihúsum og þar með fékk hann loksins nægilegt pláss fyrir safnið sitt. ATH. Á ljósmyndunum í greininni má sjá að Henrik safnar líka ýmsu öðru… eins og t.d. herðatrjám. Ljósmyndari: GLENN GLICKO ANDERSSON.

Það getur svo sem verið að ykkur lesendum þyki það einkennilegt að þessi maður hafi haft síldardósasafn í stofunni heima hjá sér…
Já, kannski það, en ég segi “guði sé lof”  fyrir að það séu til svona persónur sem taka að sér að varðveita merkilega iðnaðarsögu sinnar heimabyggðar. Annars hefði þessu líklega bara verið hent á hauganna. Svona síldarsögu einkasafnara hef ég hitt í mörgum litlum bæjarfélögum úr um alla vesturströnd Svíþjóðar og við skulum ekki gleyma að það sem í dag heitir því virðulega nafni “Síldarminjasafn Íslands”    byrjaði í gegnum ötula vinnu svona áhugafólks eins og Henriks.

Ég vill líka minna á safnið hans Þórs Jóhannssonar, en hann er Siglfirskur bekkjarbróðir minn og mikill safnari eins og ég.
Hann hefur í áratugi bjargað ýmsum áhugaverðum fornmunum frá bráðum öskuhaugadauða. Ég lána stundum myndir og efni frá honum líka í mínar Siglósögur.

Nú síðast í pistlinum: PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

Á flickr síðu Þórs eru fleiri þúsund áhugaverðar ljósmyndir af hinu og þessu sem hann safnar. Sjá meira hér: Bland miða og fleira
Bland skjala úr safni: Þór Jóhannsson.

BLÆTI, HRIFNING… ÁRÁTTA?

Sumt er varla hægt er að útskýra fyrir öðrum en öðru fólki með svipað blæti, en ég veit að minn ljósmyndaáhugi er meðfæddur. Það var mikill ljósmyndunaráhugi í ættinni og ég var snemma mikið í því að bæði taka og framkalla myndir í Æskulýðsheimilinu heima á Sigló.

Ég er alls ekki neinn fullkomnunarsinni, þ.e.a.s. ég þarf ekkert t.d. endilega að eiga allar 5 eða 10 litagerðir af sömu myndavélinni. Nei, sumar hef ég keypt vegna þess að þær eru hreinlega ljótar eða asnalegar í laginu eða með sérkennilegum aukabúnaði.
Það hefur líka verið mér mikil hugræn hvíld frá vinnu með ungt fólk í lífserfiðleikum að týna sjálfum mér í að fara á flóamarkaði eða dunda mér við netspjall við aðra safnara og finna hluti sem ég hef áhuga á að eignast. Ef það fylgir góð saga með um hver átti vélina eða hvernig hún var notuð verður hún flottari í mínum augum.

Þetta með hrifningu mína fyrir grænu gleri get ég ekki útskýrt, en það er eitthvað í akkúrat þessum græna litatón sem talar til mín, en þetta verður eitthvað svo fallegt þegar ljósið lýsir í gegnum glerið í glugganum og eins og sjá má á ljósmyndunum sem birtast ykkur hér neðar safna ég ýmsu öðru gömlu dóti líka.

Við eldhúsborðið eru í efstu hillunni nokkrar neðansjávarmyndavélar og síðan í hillunum þar undir ýmis fræg myndavélamerki með allskyns aukabúnaði. T.d. Olympus, Canon, Yashica, Pentax, Chinon, Konica, Aires, Minister, Edixa, Minolta og flottust er líklega Nikon F3.
Á hillunni í horninu eru t.d. flott Rolleflex myndavél. Polaroid Land Camera Model 80 frá 1949.
Myndavél klædd krókódílsskinni og þar undir Hasselblad vél sem er búið að breyta í klukku.

Þarna í klukkuhillunum er ýmsar “ljótar” plastmyndavélar eins og t.d. Holga vél sem lítur út eins og leikfang fyrir börn.

Hér í þessum tveimur glerskápum geymi ég nokkrar myndavélar sem eru mér kærar.
Þarna má meðal annars sjá… Leica III, steríó myndavélar, nokkrar sjaldgæfar og eldgamlar Kodak belgmyndavélar. Sumar eru frá byrjun 1890. Svo eru þarna atvinnumanna vélar eins og t.d. Linhof og Graflex. Ofan á skápunum er svört handsnúin “analog tölva” frá 1938, atvinnumanna myndavél frá Gautarborgarfyrirtækinu Hugo Svensson.

Upp í hægra horninu sjáum við bangsa sem er með myndavél í nefinu. Þar til vinstri er gömul merkileg veggklukka. En Viktor Hasselblad lét starfsmenn sína æfa sig í nokkur ár við þá fín vinnu sem það inniber að gera úrverk. Á hornhillunni er t.d. Rollecord myndavél sem er litla systir Rolleflex. Siggi Sixpensari í IFK Gautarborg búning stendur ofan á grænu gömlu Philips bakkalít útvarpi. Síldarstúlkumálverkið er eftir Sigurjón Jóhannsson, ég vann það í happdrætti hjá Siglfirðingafélaginu fyrir 35 árum síðan. Þar við hliðina fallegt síldarstúlku klippilistaverk eftir Abbý.

Á þessum stofuvegg má sjá “grænt gler” og kertastjaka frá ca 1965 sem eru hannaðir af sænskum arkitekt sem heitir Gunnar Ander en það var hann sem fann upp aðferð við að blanda þennan sérstaka glerlit. Á hillunni þar fyrir ofan er Austur þýsk Zenit Fotosniper myndavél með riffilskafti sem var þægilegt að hafa með þungum stórum “zoomlinsum” þar við hlið, einkennileg myndavél sem var notuð við læknisfræði rannsóknir og síðan er svarti klumpurinn þar við hlið merkileg Amerísk flughersmyndavél sem var inn í væng á breskri Spitfire flugvél í seinni heimsstyrjöldinni.

Yfir baðherbergishurðinni trjóna þessar litlu myndavélar með ýmsum einkennilegum flasslausnum. Merkilegust er þessi hvíta í miðjunni, Minox 35 AL.

Á sjónvarpsskápnum er grænt gler og ávaxtafat sem Gunnar Ander hannaði og t.d. tvær rússneskar myndavélar, til hægri Leica kópía með einkennilegum aukabúnaði og til vinstri panorama myndavél þar sem linsan hreyfist í 180 gráður og málar panorama ljósmynd á 35 mm .filmu.

Á hillu fyrir ofan eldhúshurðina má sjá meðal annars tvær Kueb (KGB njósnamyndavélar) og litla Minox vél með flassi.

Á hillum frammi í forstofu má sjá t.d. þessar tvær stóru atvinnumanna Polaroid myndavélar sem voru notaðar til að taka passamyndir í denn ( fjórar myndir í einu á sömu filmu)

Lítill glerskápur fullur af allskyns flassperum og filmum.

Yfirlits plakat sem sýnir útlitslega myndavélaþróun heimsins frá 1888 til 2013.

Allskyns “smá” og njósnamyndavélar. T.d. Myndavéla- penni, gleraugu og bíllykill.

Merkilegasta njósnamyndavélin sem ég á, er í láni og til sýnis hjá Saga Fotografica safninu heima á Sigló. En það er vasaúramyndavél frá 1907 sem sænski snillingurinn Magnus Niell (Nilsson) 1872- 1962) hannaði.

Einnota auglýsinga myndavélar. Svona plast myndavélar keypti maður í denn og tók með sér á útihátíðir, því ekki vildi maður tína fínu Kodak Instamatic vélinni sem maður fékk í fermingargjöf. Þetta einnota plastdrasl flýtur enn í dag á land og mengar fjörur út um allan heim.

Einar Björgvin Ómarsson frændi minn stendur hér við risastóra Hugo Svensson Multiflex mahoní myndavél í Saga Fotografica safninu sem ég fann í Uddevalla og sendi með mikilli fyrirhöfn og góðra manna aðstoð heim á Sigló. Sjá meira um þessa merkilegu myndavél og ýmislegt annað sem fylgdi með henni í sömu sendingu 2017. Ljósmyndasögusafnið á Sigló vex og dafnar!

TÆKI OG TÓL TIL AÐ SKOÐA MYNDIR

Okkur manneskjum hefur alltaf þótt það gaman að skoða myndir, löngu áður en ljósmyndin kemur til sögunnar er fólk að leika sér með Camera Obsura en ekkert gengur að festa myndir á eitt eða neitt og lausnin á þessu vandamáli kemur er ekki fyrr en 1839, en þá heiminum gefin frönsk eiturefna framköllunar uppfinning sem heitir Daguerreotype.

Eins og allt annað nýtt skapaði þetta hræðslu um að listmálarar og teiknarar yrðu atvinnulausir, rétt eins og að sjónvarpið myndi drepa útvarpið. Í byrjun vissi fólk eiginlega ekki hvað það ætti svo sem að gera með þessa nýju frönsku uppfinningu og þetta var í upphafi dýrt og tímafrekt efnafræðilegt ferli. Í Ameríku var það um tíma í tísku að fara með látið fólk og sérstaklega látin börn á ljósmyndastofur og síðan áttu ættingjar um alla eilífð minningu í litu boxi með mynd sem var bæði viðkvæm fyrir ljósi og súrefni.

Það er líka næstum kaldhæðnislegt og fyndið að fyrsta stafræna ljósmynd heimsins var tekin á tilraunastofu Kodaks 1975. Sem var þá stærsti filmuframleiðandi heimsins. Þeir hættu við áframhaldi tilraunir og vildu frekar halda áfram að lifa af því að selja filmur.

Fyrir þá sem eru forvitnir og vilja vita meira um ljósmyndasögu heimsins þá er hér góð söguleg samantekt á ensku með myndum á heimasíðu Iceland-photo-tours.com:

A Brief History of Photography
(By Sean Ensch)

Elsta ljósmyndin í mínu safni er Daguerreotype mynd frá ca 1845-50, líklega tekin á ljósmyndastofu í Chicago. Framkölluð með eitri eins og t.d. kvikasilfursgufum á koparplötu. Eins og sjá má hefur súrefnið í loftinu étið upp hálfa 170 ára gamla myndina.

Gömul tækni til að skoða Stereoskopi myndir. Með því að horfa á tvær “næstum” eins myndir í einu, plata augun heilan og þú upplifir myndefnið sem þrívíddarmynd.

Gamall olíulampamyndvarpi með handmálaðri litmyndagler filmu í og til vinstri Kodacrome stereo slidesmynda kíkir og fyrir miðju gamall rafhlöðu drifinn slidesmyndaskjár.

STEREOCLIC View-Masters, Bruguière, Stereoscope Lestrade, Tru-Vue… já kært barn á sér mörg nöfn. Löngu fyrir stafræna ljósmyndun, Facebook og fl. skoðaði maður heiminn og t.d. teiknimyndasögur í svona þrívíddar tækjum.

Stór ICA myndvarpi fyrir stórar gler Slidesmyndafilmur. Til vinstri “felliglerplötu” myndavél sem hægt var að hlaða með 12 þurrrum glerfilmum . Eftir að myndin var tekin þá datt hún niður í botninn á myndavélinni og næsta mataðist fram.

Olíulampamyndvarpi, kassettur og plötuspilari o.fl.

HANDMÁLAÐAR GLERPLÖTUR

Ég á slatta af þessum handmáluðu glerplötum í ýmsum stærðum og gerðum. Þori ekki að sýna ykkur sumar af þeim, því myndirnar eru oft á tíðum svo fordómafullar og ég sé fyrir mér að “efnameira fínt fólk” hafi haft það sem kvöldskemmtun að kasta þessum myndum á hvítmálaða veggi. Skoðað og hlegið dátt að fáfræði og útliti sinna undirsáta.

Allskyns “almúgafígúrur”.

Já… hermennskan er ekkert grín….

Stór glerfilmu slidesmynd í lit.

GRÆNT GLER OG FL.

Eins og áður sagði, þá get ég ómögulega útskýrt af hverju ég er svo hrifin af einmitt þessum fallega græna lit, en víst, það er dásamlegt að horfa á þetta í gluggaljósinu.

Eða hvað finnst þér?

Fígúrur og blómavasi í glugga.

Grænir fiskar o.fl. gá til veðurs í stofuglugganum mínum.

Grænt gler í daglegri notkun.

…. og allir mínir eldhússkápar eru fullir af þessu græna gleri líka.

AÐ LOKUM… eitthvað sem er bæði gler og myndavél

Þegar maður gefur sinn inn í þennan söfnunarnörda heim kynnist maður oft skemmtilegum manneskjum og stundum er veruleikinn skrítnari en lífið sjálft. Eftir mikla og langa leit á netinu og víða hjá ýmsum þekktum uppboðsfyrirtækjum fann ég þessa Hasselblads 500 C/M kristal myndavél. Það voru á sínum tíma aðeins framleidd 2000 númeruð eintök. Það skrítna var að konan sem seldi mér hana bjó í næstu götu við mig hér í Ale-kommun og sagan um hvernig hún eignaðist hana gerði akkúrat þetta eintak meira áhugavert.

Hún hafði erft hana eftir nýlátinn bróður sinn sem var listamaður og um tíma glerlistahönnuður. Vinur hans sem sá um hönnun og framleiðslu á þessum glermyndavélum gaf honum þetta eintak. Þetta er sem sagt ónúmeruð “prótótýpa” nr. 0.

Þessi fallega og einstaka kristalmyndavél er nú til sýnis á Saga Fotografica ljósmyndasögusafninu heima í firðinum fagra.

P.S.
Já, það er alveg heilmikill vinna að þurrka rykið af öllu þessu safndóti mínu.

Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.

Höfundur texta, ljósmyndari og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég:
Sólveigu Jónsdóttur.

Heimildir:
Vísað er í hinar ýmsu heimildir gegnum slóðir í sjálfri greininni.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

HAUGASUND Á SIGLUFIRÐI VAR EITT AF HÚSUNUM Í HJARTA BÆJARINS

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

GÚSTI OG KLEINURNAR

1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!

DRAUGASAGA STEINGRÍMS

DRAUGAGANGURINN Á AÐALGÖTUNNI

ERT ÞÚ ÁTTAVILLTUR SIGLFIRÐINGUR?

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 60 MYNDA-SYRPUSAGA

UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…

FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)