Björgunarsveitin Strákar var kölluð til aðstoðar göngumönnum sem lentu í erfiðum aðstæðum efst í Brimnesdal í Ólafsfirði í gær ásamt Björgunarsveitinni Tind Ólafsfirði, Björgunarsveitinni Dalvík og Lögreglunni.
Aðstæður voru erfiðar á vettvangi vegna ísingar og hálku. Brugðið var á það ráð að flytja mannbrodda og ísaxir með dróna Stráka upp í hlíðina til göngumanna sem voru orðnir þreyttir og útbúnaður þeirra dugði illa við þessar aðstæður.
Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu göngumennina niður hlíðina í bíla sveitanna sem biðu þeirra.
Aðgerðin hófst um 18:00 og voru göngumenn komnir í bílana um 22:00.
Frábært samstarf björgunarsveitanna á Tröllaskaga sannar sig enn á ný og er til fyrirmyndar segir á facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Stráka.




Myndir:Björgunarsveitin Strákar




