- 900 gr ýsa eða þorskur
- ólívuolía
- 50 gr smjör
- 100 gr hveiti
- 600 ml mjólk
- 350 gr nýrifinn cheddar
- 50 gr nýrifinn parmesan
- 200 gr blómkál
- 1-2 púrrulaukar
- brauðraspur
Hitið ofninn í 180°. Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu við háan hita í 1-2 mínútur (fiskurinn á ekki að verða fulleldaður). Takið fiskinn af hitanum og leggið til hliðar.
Skerið púrrulaukinn í grófar sneiðar og blómkálið í bita. Sjóðið saman í ca 5-7 mínútur og hellið síðan vatninu af.
Bræðið smjörið á pönnu eða í stórum potti. Bætið hveitinu saman við og hrærið vel saman. Leyfið þessu að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stöðugt þangað til blandan er orðin að þykkri, sléttri sósu. Kryddið vel (ég notaði salt, pipar og Krydd lífsins frá Pottagöldrum) og hrærið helmingnum af báðum ostunum saman við. Bætið grænmetinu í og hrærið vel. Hrærið að lokum fiskinum út í. Setjið blönduna í eldfast mót, dreifið restinni af ostunum yfir og að lokum handfylli af brauðraspi. Bakið í ca 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit.
Börnin mæla með að rétturinn sé borinn fram með tómatsósu.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit