Greta Clough hefur verið kjörin formaður UNIMA á Íslandi, en UNIMA eru heimssamtök brúðulistafólks.
Samtökin voru stofnuð 1929, og í dag er UNIMA (Union Internationale de la Marionette) með deildir í 101 landi og opinber samstarfsaðili UNESCO.
Brúðuleik má finna í öllum tegundum samtímasviðslista. Í leikhúsi, kvikmyndum, á mannfögnuðum og atburðum, í menntaskyni og til lækninga, rétt eins og önnur listform, þá er brúðuleikur leið til að samreina fólk og berjast gegn umburðarleysi og ofbeldi.
UNIMA á Íslandi var stofnað 1975 að frumkvæði Michael Meschke. Oft er upphaf brúðuleikhúss á Íslandi rakið til seinni heimstyrjaldarinnar þegar að flóttamaður úr Þýskalandi nasismans, Kurt Zier, listkennari og brúðuleikari stofnaði Maríonettufélagið og setti upp Fást eftir Göthe.
1954 var Íslenska brúðuleikhúsið stofnað af Jóni E. Guðmundssyni (d. 2005). Strengjabrúður hans eru nú í vörslu Leikminjasafns Íslands.
Verk íslenskra brúðulistamanna, sem eru gífurlega fjölbreytt, hafa hlotið mikið lof, bæði hér heima og á erlendri grundu.
Greta er listrænn stjórnandi Handbendis Brúðuleikhúss á Hvammstanga og tekur við stjórnarformennsku af Bernd Ogrodnik.