Frá Þjóðlagahátíð

Umfjöllun hér í pistlunum hefur snúist um menningarstefnu Fjallabyggðar og hvernig gjörðir ráðamanna hafa ekki verið í samræmi við hana. Ef rýnt er í stefnuna virðist orðið “menning“ eiga fyrst og fremst við listir (tónlist, myndlist og bókmenntir líklegast), safnastarf, menningarhátíðir, sögulega arfleifð og minjar. Þetta eru orðin sem skýra stefnuna og merkja væntanlega þá menningu sem þrífst utan hins eiginlega “bæjarkerfis”. Sem sé hið frjálsa og sjálfsprottna og er stefnan full af fögrum fyrirheitum um það hvernig bæjarstjórn geti hlúð að og ræktað. Um það fjölluðu pistlar mínir. Vísað skal aftur á þessa stefnu: https://www.fjallabyggd.is/static/research/files/fb2009_menningarstefna-pdf:

Þetta er áréttað hér vegna réttmætra ábendinga frá Ólafi Marteinssyni sem vísa í ársreikninga Fjallabyggðar með himinháum tölum. Meðan ég held því fram að þessi menning „úti í bæ“ mæti samdrætti og skilningsleysi þá bendir Ólafur á að tölurnar sýni annað. Það skýrist vonandi á næstunni hvernig í pottinn er búið í þessum efnum.

Menningarsjóðnum breytt

Hér er fjallað lítillega um Menningarsjóð Sparisjóðs Siglufjarðar því úthlutanir úr honum eða arftaka hans tvö síðustu ár tengjast mjög þröngri sýn og aðhaldsstefnu bæjarstjórnenda gagnvart eðlilegu menningarstarfi. Þetta atriði skýrir vonandi hvers vegna hlutur Ólafsfjarðar er minni en Siglufjarðar í þessum pistlum.

 

Í Alþýðuhúsinu

 

Sjóðurinn var stofnaður árið 2003 með 15 milljóna króna framlagi frá Sparisjóði Mýrasýslu í tengslum við kaup á öllu stofnfé heimamanna í Sparisjóði Siglufjarðar.
Sjá hér: http://www.siglo.is/is/frettir/menningasjodur_sparisjodsins/
Sparisjóður Siglufjarðar varð svo AFL-sparisjóður og rann á endanum inn í Arion banka 2015. Sama ár lagði Arion banki niður Menningarsjóð Sparisjóðsins (eins og segir í fyrirsögn fréttar: http://saudarkrokur.is/arion-lagdi-nidur-menningarsjod-sparisjods-siglufjardar/ ) og endurskipulagði síðar sem Samfélags- og menningarsjóð Siglufjarðar.
Að sögn Ólafs Jónssonar fyrrverandi sparisjóðsstjóra var Menningarsjóðurinn stofnaður fyrir áeggjan og metnað heimamanna í þeim tilgangi að styðja við menningar- og líknarmál staðarins. Og alla tíð hafi þess verið vandlega gætt að sjóðurinn efldist með vöxtum og verðbótum og aðeins árlegum aukaframlögum veitt í úthlutanir – og ennfremur að hann þjónaði eingöngu því sem honum var ætlað hlúa að.

Síldarævintýri á Siglufirði

Þegar Menningarsjóðurinn var „lagður niður“ var ráðstöfunarfé hans nærri 30 milljónum króna – svo eftir nokkru var að slægjast.
Undir merki Samfélagssjóðsins hófust sem sé úthlutanir á nýjum forsendum. Hér verður ekki sérstaklega amast við því en augljóst er að ýmsir hafa verið ósáttir við menningarhugsjónina sem bjó áður að baki.
Skoðum nú lítillega hvernig úthlutunum var háttað í nýju skipulagi. Menningarmál eins og þau voru greinilega skilgreind hjá upprunalega sjóðnum og í menningarstefnu Fjallabyggðar fengu árið 2017 um 10% af heildarúthlutunum og nærri 17% 2018. Fjölmargir styrkir runnu til íþróttafélaga og ýmissa frjálsra félaga og klúbba. Það sem fyrst og fremst vekur athygli er það að verkefni sem skilgreina má eða heyra beinlínis undir þjónustusvið sveitarfélagsins fengu fyrra árið um 50% og síðara árið nærri 60% af úthlutunarfé sjóðsins. Undirritaður gerir sér fulla grein fyrir að í þessum skilgreiningum gæti hann verið kominn út á hálan ís því allt er afstætt og sitt sýnist hverjum. Og ekki skal efast um mikilvægi allra verkefna sem styrki fengu. EN – þegar verkefni heilsueflandi Fjallabyggðar og brýn verkefni Grunnskólans hljóta verulegar upphæðir eða mikilvægri þjónustu sem sveitarfélagið á að veita eldri borgurum er velt yfir á fyrrum sjálfstæðan menningarsjóð – þá er eitthvað að. Að sögn fyrrverandi skólastjóra Grunnskólans höfðu bæjarstjórnendur hafnað mikilvægum verkefnum í þágu skólabarnanna fyrir árið 2017 og var það þá þrautalending að leita annað.

Þjóðlagahátíð

 

Víst er að margir þeir sem lengi hafa lagt mikið á sig í þágu samfélagsins í menningarlegu tilliti eru ekki sáttir við það að bróðurparturinn af upphaflega menningarsjóðnum renni til verkefna sem skilgreina má sem lögbundin eða eðlileg þjónusta sveitarfélagsins við íbúana.
Og eins og fyrr hefur verið rakið drógu bæjarstjórnendur samtímis verulega úr stuðningi við menningarlífið – í andstöðu við eigin stefnu! Og það á tíma mikillar velgengni þegar árlegur hagnaður bæjarsjóðs var að meðaltali um 160 milljónir!
Hvað veldur?
Lagt var upp með þá hugmynd sem lá í loftinu að malbik og menning séu andstæður – sem það vissulega er. En í sanngjörnu og manneskjulegu samfélagi telst hvoru tveggja sem eðlilegir þættir daglegs lífs. Með hugarfari sínu og gjörðum virðast bæjarstjórnendur hins vegar hafa skapað og skerpt þessar andstæður í hugum margra.

Væntanlega verða ekki allir sem þetta lesa sammála þeim sjónarmiðum sem hér eru sett fram. Hvet því til rökrænna skoðanaskipta.

Fjórði og síðasti pistillinn heitir: Löglegt og siðlegt?

 

Sjá: Malbik og menning I
Sjá: Malbik og menning II

 

Örlygur Kristfinnsson