Í frétt hér á Trölla.is fyrir skömmu var látið að því liggja að stjórnendur Fjallabyggðar hefðu meiri áhuga á malbiki en menningu. Sjá: https://trolli.is/baejarstjornarfundir-i-beinni/

Það varð kveikjan að því að undirritaður fór að skoða menningarmál í Fjallabyggð og hvernig áhugi og gjörðir bæjarstjórnenda í þeim efnum koma fyrir sjónir.
Verður þessi athugun birt hér á fréttasíðunni í fjórum pistlum. Fyrst er svolítið um menningarstefnu sveitarfélagsins, þá verður fjallað um stöðu og þýðingu menningar á staðnum, hvernig fór um Menningarsjóð Sparisjóðs Siglufjarðar og loks hvort löglega var staðið að umbreytingu sjóðsins.

(P.s. – Síðan þessir pistlar voru skrifaðir í lok nóvember hafa tvær fréttir verið fluttar hér á trolli.is um framlög bæjarstjórnar til menningarmála: https://trolli.is/menningarstyrkur-fjallabyggdar-2019/ og https://trolli.is/kaldar-kvedjur-fra-fjallabyggd/ ).

 

Ljóðasetur Íslands

Um menningarstefnu Fjallabyggðar
Í maí 2009 samþykkti bæjarstjórn Fjallabyggðar menningarstefnu sveitarfélagsins í 1100 orðum og gaf út í veglegu litprentuðu hefti. Stefnan er einnig aðgengileg hér:

https://www.fjallabyggd.is/static/research/files/fb2009_menningarstefna-pdf

Fimm atriði úr stefnunni:

  • Menningarlífið er ein af auðlindum Fjallabyggðar.
  • Menningarstefnan er staðfesting og viðurkenning á mikilvægi og gildi menningarlífs í sveitarfélaginu.
  • Fjallabyggð stefnir að því að verða leiðandi aðili í sveitarfélaginu með stuðningi og hvatningu til þeirra sem starfa að menningarmálum – Sveitarfélagið ætlar að tryggja nægjanlegt fjármagn til málaflokksins til að framfylgja stefnu þessari …
  • [Stefnt að:] langtímaáætlun um uppbyggingu á sviði menningarmála þar sem verkefnum verður forgangsraðað og þau tímasett.

Síldarminjasafn Íslands

Þessi dæmi úr menningarstefnunni sýna vel gæði hennar og góðan hug þeirra sem sömdu og samþykktu. En hvernig skyldi henni hafa verið framfylgt?

Fyrir tveimur árum kom nokkur hópur fólks saman að ósk bæjarstjórnenda til að endurskoða menningarstefnu sveitarfélagsins. Þar var forráðafólk Grunnskólans, MTR, Bókasafnsins, Síldarminjasafnsins, Þjóðlagaseturs, Ljóðaseturs, Herhússins og Örnefnafélagsins Snóks. Í bréfi þess til bæjarstjórnar var lýst miklum efa um „að þau ágætu sjónarmið og markmið sem fram koma í menningarstefnunni gildi í raun við meðferð menningarmála í bæjarstjórn síðari misseri“. Þegar sveitarfélagið heitir því „að tryggja nægjanlegt fjármagn til málaflokksins“ þá er raunin sú að upphæð styrkja til menningarverkefna (t.d. safna og setra) lækkar verulega í krónutölu milli ára – auk þess að hafa lækkað um allt að 50% að verðgildi á sl. 10 árum. Skýtur það mjög skökku við í ljósi þess að til dæmis margt af því sem gert hefur verið í þessum málum hefur vakið athygli víða um land, verið öðrum sem fyrirmynd í margvíslegu tilliti ásamt því að vera hornsteinn fyrir þá nýju atvinnugrein í sveitarfélaginu sem ferðaþjónustan er.

Það kom sem sagt skýrt fram í umræddu bréfi að hópurinn taldi enga ástæðu til endurskoðunar á menningarstefnu Fjallabyggðar – en hvatti til að bæjarfulltrúum og bæjarstjóra yrði kynnt stefna sveitarfélagsins í upphafi hvers kjörtímabils. Það væri skylda bæjarstjórnar að vera meðvituð um eigin stefnu og framfylgja því meginsjónarmiði hennar að: menningarmál skulu viðurkennd sem mikilvægur liður í lífsgæðum íbúa, búsetuskilyrðum og uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

 

Örlygur Kristfinnsson