Staða menningarmála

Áður en lengra er haldið er rétt að spyrja:
Hvað er malbik? Blanda úr jarðbiki og grjótmulningi höfð í slitlag á götur og víðar – segir orðabók.

Hvað er menning? Margar mismunandi skilgreiningar eru til á þessu orði. Í orðabókum má sjá að menning er notað um margt af því besta og dýrmætasta sem einkennir mannlega tilveru. Í menningarstefnu Fjallabyggðar virðist aðallega átt við listir (tónlist, myndlist og bókmenntir líklegast), safnastarf, menningarhátíðir, sögulega arfleifð og minjar.

 

Leikfélag Fjallabyggðar

Í fyrri pistli um menningarmál í Fjallabyggð var niðurstaðan augljóslega sú að bæjarstjórnendur hafi á síðustu árum dregið verulega úr framlögum til menningarmála. Samtímis kom fram ósk um endurskoðun á skýrri og metnaðarfullri menningarstefnu sveitarfélagsins – frá bæjarstjóra að sögn en var þar að baki samþykkt bæjarfulltrúa eða menningarnefndar?
Vönduð stefna sveitarstjórnar í tilteknum málum hlýtur að vera stefna samfélagsins, fólksins í bænum og verður ekki breytt nema með lýðræðislegum hætti.
Hverjir voru það sem urðu af stuðningi og hvatningu í leiðandi frumkvæði bæjarins eins og því er lýst í menningarstefnunni? Telja mætti mikinn fjölda þátttakenda í margskonar tónlistarlífi, þá sem tengjast myndlist ásamt söfnum, setrum og menningarhátíðum svo eitthvað sé nefnt. Sem sagt bæjarlífið sjálft – sem var að vísu ekki á flæðiskeri statt þótt bæjarstjórn hafi brugðist eigin stefnu. Menningin er söm og jöfn og sannarlega vel lifandi – haldið uppi af fjölda skapandi einstaklinga. Hvað það hefði samt verið áhugavert að sjá sveitarfélagið koma inn í þetta þróttmikla líf og sjá gamalt og rótgróið dafna betur eða eitthvað nýtt kvikna og blómstra!
Það er hins vegar annað og alvarlegra mál að bæjarstjórnendur virtust draga úr í stað þess að auka stuðning við menningarlífið. Ekki er fátækt og peningaskorti fyrir að fara þar sem hagnaður á rekstri bæjarsjóðs 2012-2017 var að meðaltali 162 milljónir króna á ári!
Samtímis hefur bæjarfélagið stundað miklar og dýrar framkvæmdir við fráveitur, hafnargerð og flugvöll þar sem mikið malbik hefur verið lagt! Mikil framfaramál þau tvö fyrrnefndu sem ber að fagna.

 

Flugvöllurinn á Siglufirði

En viðhorfin og verkin sýna að einhver skekkja hefur verið í skilningi ráðamanna á samhengi hlutanna og það er eins og menningarþátturinn sé hornreka – „hreppsómaginn verður að fá sitt en það skal skorið við nögl!“
En hví að kvarta ef „menningin“ lifir af dáðleysi ráðamanna?
Nokkuð hefur verið rætt á síðari árum um hagræn áhrif menningarinnar – bein og óbein. Ljóst er að frumkvöðulinn og framkvæmdamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur ríkan skilning þegar hann nefnir menninguna sem einn af fimm grundvallarþáttum samfélags okkar – sjá: http://www.ruv.is/frett/taekifaerin-a-siglufirdi.

 

Sigló Hótel á Siglufirði

Þá hefur hann marg talað um það að án Síldarminjasafnsins og Þjóðlagaseturs hefði fyrirtæki hans ekki farið út í hina miklu uppbyggingu og rekstur á sviði ferðaþjónustu.
Annað hagrænt dæmi má nefna í sambandi við Síldarminjasafnið. Auk þess að hafa staðið við allt sitt og laðað að tugi og hundruð þúsunda ferðamanna þá hafði safnið frumkvæði að skipulagðri markaðskynningu fyrir skemmtiferðaskip fyrir nokkrum árum – og hefur lagt í umtalsverðan kostnað við það. Árangurinn er augljós; heimsóknir fjölda skemmtiferðaskipa færa bæjarkassanum miklar tekjur.
Þróttur menningarlífsins á Siglufirði hefur víða vakið athygli og margt hér orðið öðrum sem fyrirmynd. Og því er oft haldið fram að hin nýja menning okkar sé undirstaðan að nýjum og betri Siglufirði. Eflaust hafa bæjarstjórnendur í Fjallabyggð skynjað þetta og skilið þegar þeir samþykktu í menningarstefnu sinni árið 2009 að „stoðir safna, list- og handverkshúsa verði styrktar.“ En á næstu árum gerðist hið gagnstæða: stuðningurinn minnkaði!
Að lokum má spyrja: hvað eiga eftirtaldir menningarstaðir hér í bænum sameiginlegt: Þjóðlagasetrið, Alþýðuhúsið (listasetur), Ljóðasetrið, Herhúsið, Síldarminjasafnið og Saga-Fotografica?
Svar: Settir á fót af frumkvæði og framtaki einstaklinga og félaga (venjulegra bæjarbúa) – hafa síðan borið hróður Siglufjarðar og Fjallabyggðar víða. Í framhaldi mætti einnig spyrja hvernig eru þessi söfn og setur stödd fjárhagslega.

(Þriðji pistillinn: Menningarsjóðnum breytt)

Sjá: Malbik og menning I

 

Örlygur Kristfinnsson