Það var þægileg tilfinning þegar skips flaut heyrðist um hádegisbilið þann 22. nóvember sl. en þá kom nýr dráttarbátur Skagafjarðarhafna siglandi inn í Sauðárkrókshöfn eftir langa og stranga siglingu til Íslands. Dráttarbáturinn bar nafnið Bruiser en í dag var honum gefið nafnið Grettir sterki við vígsluathöfn við Sauðárkrókshöfn.
Nafnið Grettir sterki á vel við hérna í Skagafirði og er báturinn fyrsti dráttarbátur í eigu Skagafjarðarhafna. Grettir sterki er dráttarbátur af gerðinni Damen frá árinu 2007, 20 metra langur og 7 metra breiður með 28 tonna togkraft og tvær 1000 hestafla Caterpillar vélar knúa hann áfram. Kemur Grettir sterki til með að auka öryggi við Skagafjarðarhafnir en mikil aukning hefur verið á umferð um Skagafjarðarhafnir og stefnir í mikinn vöxt á næstu misserum.
Þó nokkrar framkvæmdir hafa verið hjá Skagafjarðarhöfnum að undanförnu og er til að nefna ný búið að dýpka snúningssvæði Sauðárkrókshafnar og stendur nú yfir vinna við lengingu norðurgarðs Sauðárkrókshafna. Möguleikar á stækkun hafnarinnar eru miklir og mikilvægir fyrir samfélagið í Skagafirði og til þess að mæta þeirri miklu aukningu á umferð sem verið hefur á undanförnum misserum. Á vordögum verður endurnýjaður og styrktur norðurgarður Hofsóshafnar með grjótvörn. Einnig á að ráðast í endurnýjun stálþila í Sauðárkrókshöfn og Hofsóshöfn.
Framtíðin er því björt hjá Skagafjarðarhöfnum og óskum við þeim til hamingju með nýjan dráttarbát.
Sjá myndir frá vígslunni: HÉR
Mynd/skagafjordur.is