Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra kom til Siglufjarðar ásamt fleiri góðum gestum í síðustu viku til fundar við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð, til að kynna skýrslu um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi.
Veðurstofa Íslands hefur að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins unnið að mati á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi. Kynningar verða haldnar á drögum skýrslunnar fyrir sveitarstjórnarfólk í sex sveitarfélögum auk Fjallabyggðar, Snæfellsbæ, Vesturbyggð, Ísafirði, Fjarðabyggð og Múlaþingi.
Ofanflóðahætta er víða á atvinnusvæðum bæði í og við þéttbýli og í dreifbýli og er skýrslunni ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu.
Frá 1996, þegar uppbygging varnarvirkja komst í núverandi horf, hefur Ofanflóðanefnd lagt áherslu á að verja íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Þar eru enn stór verkefni óunnin og er áætlað að lokið sé við rúmlega helming þeirra verkefna sem þarf að vinna til þess að verja öll íbúðarhús á svo nefndum C-svæðum í þéttbýli, þar sem hættan er talin mest í ofanflóðahættumati.
Þeir gestir sem voru með ráðherra í för voru Steinar Ingi Kolbeins aðstoðarmaður ráðherra, Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands, Elísabet Pálmadóttir, teymisstjóri náttúruvár, vöktunar og rannsókna hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Að sögn Sigríðar Ingvarsdóttur bæjarstjóra var þetta virkilega góður og gagnlegur tveggja tíma fundur með ráðherra og hans fólki um ofanflóðahættu, ýmiskonar náttúruvá, loftlagsmál og margt fleira auk þess sem bæjarfulltrúar gátu tekið upp hin ýmsu mál við ráðherra.
Heimild /Fjallabyggð
Forsíðumynd/Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra
Mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson