Neytendastofa hefur fengið fjölda ábendinga út af BIBS snuðum. Snuðin hafa verið seld án umbúða, viðvarana og leiðbeininga sem eiga að fylgja snuðunum. Verslanir sem Neytendastofa hefur haft vitneskju um að selt hafi snuðin hafa tekið þau úr sölu. Neytendastofu berast þó en ábendingar um verslanir sem eru að selja snuðin.
Snuðin hafa verið seld í dollum flokkuð eftir litum og hafa verið mjög vinsæl. Þar sem snuðin eru ekki í umbúðum er auðvelt að snerta mörg snuð þegar eitt er tekið úr dollunni. Það er ekki leyfilegt að selja snuð án umbúða og er ein ástæða þess augljós þegar veirufaraldur geisar eins núna.
Það þarf líka að hafa í huga að það eru ekki sömu stærðir af snuðum fyrir yngstu börnin og þau eldri. Tútturnar eru misjafnar og þá er verið að taka til greina meðal annars bitkraft tanna barna. Vill Neytendastofa vekja athygli á því að mikilvægt er að kaupa snuð sem hæfir aldri barns.
Engar merkingar eru á umbúðalausu snuðunum sem segja til um fyrir hvaða aldur þau eru, hve lengi þau endast eða almennt um viðvaranir og leiðbeiningar sem verða alltaf að fylgja snuðum.
Það er auk þess ekki nægilegt að merkja snuðin með 1 eða 2 þar sem það segir ekkert um fyrir hvaða aldur snuðin eru. Það skiptir miklu máli að snuð hafi þær viðvaranir og leiðbeiningar sem eiga við.
Á umbúðunum verða einnig að koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar s.s. nafn dreifingaraðila, tegund snuðsins, stærð, fyrningardagur og lotunúmer. Þá þurfa að vera viðvaranir og leiðbeiningar um hvernig á að meðhöndla snuðið til dæmis þarf að koma fram ný snuð þarf að sjóða áður en þau eru notuð.
Neytendastofa hvetur neytendur til að senda inn ábendingu í gegn um mínar síður ef það hefur vitneskju um hvar enn er verið að selja snuð án umbúða, varúðamerkinga og leiðbeininga.