Gróðureldar eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi en geta verið illviðráðanlegir berist eldur í þurran gróður.
Slökkvilið Húnaþings vestra hefur sinnt einu gróðurelda útkalli í vor og áhættutími sinubruna er í hámarki þessi misserin.
Slökkviliðsstjóri vill minna fólk á að hafa þurran gróður í huga og eins að minna á að stranglega er bannað með öllu að kveikja í rusli eða sinu án samþykkis slökkviliðs. Umsóknir varðandi bálköst fara í gegnum sýslumann með umsögn slökkviliðsstjóra. Í umhverfi okkar er nægur eldsmatur í formi gróðurs og áhugavert að veita honum athygli í bíl eða göngutúrnum.
Lítill saklaus eldur í gróðri getur fljótt farið úr böndunum meðal annars vegna hvassviðris og valdið verulegu eignatjóni og heilsutjóni. Höfum þetta á bak við eyrað og förum varlega segir á vefsíðu Húnaþings vestra.
Mynd/Húnaþing vestra