Langflest nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga eru hamingjusöm, sátt og finnst allt í besta lagi í skólanum. Þetta kemur fram í niðurstöðum Skólapúls framhaldsskóla sem er könnun á líðan sem árlega er lögð er fyrir alla framhaldsskólanema í landinu.
Samsömun við nemendahópinn hefur batnað síðan 2019 skv. könnuninni og er áhugavert að þar virðist heimsfaraldurinn ekki hafa haft neikvæð áhrif heldur þvert á móti.
Í skólapúlsinum kemur einnig fram að stærstur meirihluti nemenda eru ánægð með stuðning kennara. Þau telja að kennarar sýni námi þeirra áhuga, veita auka aðstoð ef á þarf að halda og haldi áfram að útskýra þar til nemendur skilja. Í þessum matsþætti kemur MTR töluvert betur út en aðrir skólar sem er mjög ánægjulegt.
Undanfarin misseri hefur mikil áhersla verið lögð á geðrækt og líðan bæði nemenda og kennara skólans. Bæði hefur þetta verið undir merkjum Heilsueflandi framhaldsskóla og með valáföngum í geðrækt sem hafa verið vinsælir og einnig hafa nemendur fengið fræðslu um geðheilsu í fjölda fyrirlestra og kynninga að undanförnu.
Kennarar hafa einnig litið inn á við og hafa fengið fjölbreytta fyrirlestra og kynningar í þessa veru síðustu annir. Síðasta vor hélt stærstur hluti kennara auk þroskaþjálfa og iðjuþjálfa á vikunámskeið á Tenerife þar sem áhersla var á vellíðan og aukna ánægju í starfi. Allt þetta starf er greinilega að skila sér ef marka má niðurstöðurnar í skólapúlsinum sem er sérlega ánægjulegt fyrir Menntaskólann á Tröllaskaga.
Smellið hér til að rýna í niðurstöður skólapúlsins.
Mynd/ Lísebet Hauksdóttir