Veitingageirinn.is hefur verið ötull við að birta fréttir hér að norðan og kom þessi ánægjulega frétt frá þeim í vikunni.
Eins og fram hefur komið þá tóku nýir rekstraraðilar við veitingadeild Rauðku á Siglufirði um mánaðamótin s.l., en það eru hjónin Bjarni Rúnar Bequette og Halldóra Guðjónsdóttir framreiðslumaður.
Á meðal áherslna hjá þeim eru breytingar á veitingastaðnum Hannes Boy, en hann hefur verið lokaður yfir veturna nema fyrir fyrirframbókaða hópa. Nú verður breyting á þar sem staðurinn verður núna opinn allt árið um kring.
Nú er komið að opnuninni á Hannes Boy, en stefnt er á að vera með “Soft opening” næstkomandi helgi til að prufukeyra matseðilinn.
Veitingageirinn.is frumsýnir matseðilinn
Það er alltaf viss eftirvænting að sjá nýja matseðilinn hjá veitingastöðum og fékk veitingageirinn.is leyfi frá þeim hjónum að frumsýna hluta af matseðilinum þó ekki sé búið að opna. Matseðillinn er enn í vinnslu og verður unnið með hann næstu vikur til að sjá og skoða viðbrögð bæjarbúa á Siglufirði. Fyrst um sinn verður ekki boðið upp á pizzur þar sem enn er verið að koma pizzuofninum á réttan stað og tengja. Staðurinn verður opinn frá klukkan 11:30 til 21:30 í mat.
Hér er um að ræða Bistro matseðil þar sem réttirnir eru hugsaðir sem fljótafgreiddir, bragðgóðir, litlir og stórir réttir.
Fiskur dagsins verður að sjálfsögðu á boðstólum, en þar verður ferskasti fiskur í boði beint frá Hákoni Sæmundssyni matreiðslumanni í Fiskbúð Fjallabyggðar. Verð á fiski dagsins er 1.890 kr. og verður hann í boði til klukkan 14:00.
Það er ekki annað hægt en að bjóða upp á síldarrétt í síldarbænum og á matseðlinum verður síldarsmakk með tveimur tegundum af síld, harðsoðið egg, rúgbrauð og smjör á 1.190 krónur.
Tvö salöt er á matseðlinum þar sem sjávarréttir og önd eru í aðalhlutverki. Plattinn er eitthvað sem allir ættu að prófa en á honum verður parmaskinka, anda „confit“, bláskel, reyktur lax, djúpsteikt smælki, sítrus mæjó og eldpipar mæjó og súkkulaðikökubitar með rjóma á 1.990 krónur.
Sjávarrétta pasta verður í boði með rjómasósu, hvítlauksbrauði, bláskel, rækjum, þorski, papriku, ferskum hvítlauk, steinselju og basilíku á 2.890 krónur.
Mmmmmm… Bláskel „moule frites“. Þessi réttur á uppruna sinn í Belgíu og er einnig vinsæll í Frakklandi. Moule frites þýðir einfaldlega kræklingur og franskar á hollensku. Hér getur þetta verið varla verið ferskara, 400 gr. fersk bláskel elduð upp úr hvítvíni, hvítlauk, chilli, kapers og tómötum og borin fram með frönskum og eldpipar mæjó. Verðið er 3.490 kr.
Smælki kartöflurnar setja skemmtilegan blæ á matseðlinn, en þar verða bæði fisk- og kjötréttir í boði. Smælki kartöflurnar eru djúpsteiktar og bornar fram með rækjum, reyktum laxi eða grilluðum kjúklingi. Verðið er 1.990 til 2.290 krónur.
Veglegur kjúklingaréttur er á matseðlinum eða um 250 grömm og kostar hann 3.590 krónur. Með honum er borið fram ferskt salat og val er á milli franskra eða djúpsteikts smælkis, eldpipar mæjónes.
Fyrir þá sem vilja smella sér í nautasteikina þá er boðið upp á hægeldaða 200 gr. nautalund á 4.190 krónur.
Eftirréttir eru fjórir:
– Súkkulaði kaka með sultuðum berjum og rjóma
– Klementínu skyrkaka
– Eplakaka með rjóma
– og hinn klassíski Creme Brúlee
Verðið er frá 1.390 til 1.490 kr.
Samsett mynd: siglohotel.is / veitingageirinn.is