Háskólalestin ferðast um landið með lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og býður einnig upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur, og jafnvel leikskólabörn og framhaldsskólanemendur. Haldnar eru vísindaveislur fyrir alla heimamenn með stjörnuveri, sýnitilraunum, mælingum og pælingum, og frábærum efnafræðitilraunum. Lögð er áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Á 596. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram erindi Guðrúnar J. Bachmann, dags. 06.03.2019 fh. Háskólalestarinnar. Háskólalestinn verður í Fjallabyggð dagana 17. og 18. maí nk. og mun þá bjóða grunnskólabörnum upp á námskeið í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar 17. maí þar sem nemendum gefst kostur á að sjá og kynnast tækjum og vísindum sem ekki eru í boði í Fjallabyggð.
Vísindaveisla, opin öllum, verður svo þann 18. maí.
Heimsókn Háskólalestarinnar er skólum og nemendum að kostnaðarlausu – og Vísindaveislan er sömuleiðis öllum opin, endurgjaldslaust. Óskað er eftir aðstöðu í Menningarhúsinu Tjarnarborg og styrk í formi húsaleigu.
Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála, dags. 08.03.2019 þar sem fram kemur að Menningarhúsið Tjarnarborg er laust umrædda daga. Styrkur í formi húsaleigu nemur kr. 69.600.
Bæjarráð lýsir ánægju sinni með fyrirhugaða heimsókn Háskólalestarinnar í Fjallabyggð og samþykkir að veita afnot og styrk í formi húsaleigu af Menningarhúsinu Tjarnarborg.
Bæjarráð samþykkir viðauka nr.3/2019 að upphæð 69.600 við fjárhagsáætlun 2019 við deild 04810 og lykill 9291. Viðaukanum verður mætt með hækkun á tekjum þannig að liður 05610 – 0340 hækki um kr. 61.600.- og liður 05610 – 0990 hækki um kr. 8.000.
Afgreiðsla 596. fundar bæjarráðs staðfest á 172. fundi bæjarstjórnar með 7 atkvæðum.
Forsíðumynd: haskolalestin.hi.is