17. júní, sumarsólstöður fram undan, birta, kyrrð og endalaus fegurð allan sólarhringinn.
Í sumar eru landsmenn hvattir til að ferðast um Ísland, þar sem þeir komast lítið í ferðalög erlendis. Ég vona að ferðalögin innanlands verði til þess að almenningur átti sig á að það er óþarfi að sækja vatnið yfir lækinn. Fegurðin sem landið býður upp á er einstök og möguleikarnir til skoðunar og afþreyingar eru óþrjótandi. Mér finnst persónulega mjög skemmtilegt að keyra um landið og fara alla útúrdúra og koppagötur sem fyrirfinnast. Sjá hvernig landið er byggt, skoða það sem er sérstakt og upplifa mannlífið og menninguna á hverju landssvæði fyrir sig.
Hér í Dalvíkurbyggð er margt sem hægt er að gera sér til skemmtunar og ýmis sérstaða sem fyrirfinnst ekki annarsstaðar á landinu. T.d. fjörupottarnir á Hauganesi við norðlenska strönd með sandströnd til suðurs, Bjórböðin á Árskógssandi, fótlaug Bakkabræðra í Svarfaðardal, Friðland fuglanna, Litla sveitabúðin á Völlum, Byggðasafnið með Kristjánsstofu og Jóhannsstofu og Menningarhúsið Berg, svo fátt eitt sé talið. Vonandi fáum við í sumar okkar skammt af ferðamönnum sem vilja njóta hér draumablárra daga. En það er líka mikilvægt að við kunnum að njóta alls þess góða sem boðið er upp á í okkar næsta nágrenni.
Eftir erfiðan vetur, sem sannarlega reyndi á þolrif og taugar okkar allra, finnst mér eins og íbúar Dalvíkurbyggðar eigi skilið að fá notið veðurblíðu í sumar, nú sem aldrei fyrr. Ég óska þess að sumarið verði með eindæmum hlýtt, bjart, kyrrt og gott fyrir okkur öll.
Ég sendi ykkur öllum hlýjar þjóðhátíðarkveðjur. Njótið birtunnar og sumarsins.
Kær kveðja,
Katrín Sigurjónsdóttir,
sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.
Heimild og myndir: dalvikurbyggd.is