Ljóðahátíðin Haustglæður, sem Ljóðasetur Íslands stendur fyrir, nálgast nú endasprettinn eftir fjölbreytta og vel heppnaða dagskrá.
Alls hafa 13 viðburðir verið haldnir á hátíðinni í ár. Tíu þeirra voru á vegum skipuleggjenda en á þremur tók hátíðin þátt með sérstökum innleggjum. Fjölbreytnin einkenndi dagskrána líkt og áður. Fimm viðburðir fóru fram á Siglufirði, fimm á Ólafsfirði, tveir á Dalvík og einn á Akureyri, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ljóðasetri Íslands.
Eftir stendur einn síðasti liður, verðlaunaafhending í ljóðasamkeppni meðal nemenda í 8. til 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Samkeppnin hófst í dag þegar nemendur heimsóttu Menntaskólann á Tröllaskaga og ortu ljóð út frá listaverkum eftir núverandi og fyrrverandi nemendur skólans. Einnig var unnið með þrjú verk eftir fyrrverandi bæjarlistafólk Fjallabyggðar.
Nemendurnir fengu leiðsögn frá forstöðumanni Ljóðaseturs Íslands áður en þeir hófu ljóðagerðina og voru hvattir til að sleppa ímyndunaraflinu lausum taumum. Úr varð umtalsverður fjöldi ljóða, um 70 talsins, sem nú bíða mats fimm manna dómnefndar. Höfundar bestu ljóðanna verða verðlaunaðir í næstu viku og munum við greina nánar frá úrslitunum þegar þar að kemur.
Haustglæður er haldin í nítjánda sinn og er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa. Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkja hátíðina líkt og undanfarin ár.
Myndir fylgja sem sýna nemendur í ljóðapælingum við heimsóknina í dag.
Myndir: facebook / Ljóðasetur Íslands









