Það hefur ekki farið framhjá neinum íbúa í Fjallabygg að vetur konungur mætti með vorhret í vikunni fáum til mikillar gleði.

Lisa Dombrowe og Ragnar Ragnarsson, jafnan nefndur Raggi Ragg létu vetrafærðina ekki aftra sér frá því að ganga á snjóþrúgum í Héðinsfirði föstudaginn 13. maí og tóku þessar fallegur myndir.

Á vef Fjallabyggðar segir að Héðinsfjörður sé nokkuð styttri en Siglufjörður (að innsta fjörukambi). Stórt samnefnt stöðuvatn um 2,5 km á lengd er skammt ofan við sjávarkamb.

Í byrjun 20. aldar bjuggu í Héðinsfirði um 50 manns á 5 bæjum. Vík nyrst, þá Vatnsendi, Grundarkot, Möðruvellir og Ámá. Mjög snjóþungt er þar flesta vetur og ógnuðu snjóflóð löngum búsetu manna á þessum slóðum. Vaxandi atvinnulíf og öruggari afkomumöguleikar á Siglufirði og öðrum þéttbýlisstöðum leiddu til þess að Héðinsfjörður lagðist í eyði, síðustu Héðinsfirðingarnir fluttu í burtu árið 1951. Í Vík er nú björgunarsveitarskýli.

Silungsveiði og gott berjaland dregur fólk þangað hvert sumar og víst er að Héðinsfjörður er mjög fagur á góðum degi og hin einstæða ásýnd eyðifjarðarins lætur engan ósnortinn. Um nöfn fjalla og hæð þeirra skal vísað til landakorts.

Margar leiðir er að velja þegar haldið er frá Héðinsfirði. Leiðirnar Til Siglufjarðar voru nefndar fyrr. Um þrjár fjallaleiðir er að ræða ef ganga á til Ólafsfjarðar, allar um og yfir 600 m háar: Um Víkurdal, um Rauðuskörð (570 m) og niður Árdal. Um Möðruvallaskál (690 m), svokallaðar Fossabrekkur niður í Syðriárdal. Og að síðustu yfir Möðruvallaháls (650 m) fremst í Héðinsfirði og niður í Skeggjabrekkudal. Af þessari leið er hægt að fara um Sandskarð niður í Fljót.

Að síðustu skal nefnd sú leið sem flestir ættu að fara sé þess nokkur kostur en það er sjóleiðin. Hún er afar skemmtileg í góðu veðri sérstaklega ef siglt er nálægt Hestinum eða Hvanndalabjargi.



Myndir/ Lisa Dombrowe og Ragnar Ragnarsson